Innlent

Dúettinn Árni Johnsen og Kristján Jóhannsson

Jakob Bjarnar skrifar
Árni og Kristján. Víst er að menn heyra vart magnaðari dúett við nokkra áramótabrennu en þá tvo, á Íslandi og þó víðar væri leitað.
Árni og Kristján. Víst er að menn heyra vart magnaðari dúett við nokkra áramótabrennu en þá tvo, á Íslandi og þó víðar væri leitað.
Árleg áramótabrenna Þingahverfis við Elliðavatn verður tendruð á gamlárskvöld kl. 20:30. Brennan er staðsett sunnan við Gulaþing og er öllum velkomið að taka þátt í þessari mögnuðu upplifun og þenja raddböndin undir styrkri stjórn þeirra Árna Johnsen og Kristjáns Jóhanssonar. „Þetta er svakaleg blanda,“ segir Magnús Sigurðsson sem er einn þeirra sem að brennunni stendur.

„Þeir hafa verið hjá okkur síðustu tvö ár. Þetta er 3. árið þeirra. Þeir hafa bara mætt og náð svona vel saman. Myndast mikil stemmning í kringum þá. Fólki finnst þetta ekki ónýtt,“ segir Magnús.

Árni hefur mætt sérstaklega á þessa brennu síðustu fimm ár og hefur þá gítarinn með sér. Enda er þetta hlaðin brenna, sem brennuvörgum þykir allt annað mál en að þessu sé hróflað upp, að sögn Magnúsar, sem er úr Eyjum og kann á þessu tökin. „Stóð ég úti í tunglsljósi og allur pakkinn. Þetta er eins og að vera á Þjóðhátíð og eða í einhverju svakalegu óperuhúsi. Menn vita ekki í hvora löppina þeir eiga að stíga þegar þeir tveir byrja.“

Kristján er fluttur heim frá Ítalíu, fyrir um fjórum árum, og það vill þannig til að mágur hans býr þarna uppí Þingunum við Elliðavatnið. „Ætli þetta séu ekki 3. áramótin sem við förum og eyðum með honum þarna uppfrá. Brennan er í göngufæri frá húsinu hans. Við Árni erum ágætis kunningjar og það vildi svo til að þarna sat karlinn með gítar í hönd þegar ég mætti,“ segir Kristján og telur þetta skemmtilega tilviljun. Árni er fróðastur manna um áramótalög og íslensk þjóðlög. „Hann kyrjar þetta og þekkir þetta mun betur en ég. Ég kem inn þegar ég kann. Þetta er hefur ekki verið þaulæft. Þetta er eins og máltækið segir; með sínu nefi, hvað sem það þýðir? Almennilegum söngvara er bannað að syngja í gegnum nefið. Þetta verður mjög gaman. Mér skilst að brennan sé stærri en áður, þessi brenna. Eflaust gaman eins og áður.“

Aðspurður hvort þeir ætli að gera meira með þetta samstarf, jafnvel brenna inn á plötu segir Kristján það varla. „Ég hef reynt að sjá til þess í gegnum tíðina að það sé á þessu sæmilegur standard. Þetta er til gamans gert. Annars, já, þú segir nokkuð; að hafa almennilega áramótabrennu á vídeói. Það hljómar ágætlega. Ég tók upp þjóðsönginn fyrir 20 árum, og gerði það eins og annað, betur en aðrir, og hann hefur aldrei heyrst. Verður kannski ekki endilega standardinn sem skiptir máli þegar upp er staðið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×