Íslenski boltinn

Sýnt beint frá leik Stjörnunnar og ÍBV á Vísi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leikur Stjörnunnar og ÍBV í 1. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld verður í beinni útsendingu á Vísi.

Stjörnunni var á dögunum spáð Íslandsmeistaratitlinum en liðið vann titilinn sumarið 2011. Liðið missti hann í hendur Þór/KA síðastliðið sumar en bikarmeistaratitill var góð sárabót fyrir Garðbæinga.

Töluverðar breytingar hafa orðið á liði Stjörnukvenna. Fyrirliðinn Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er haldinn í atvinnumennsku og Edda María Birgisdóttir er í leyfi en hún á von á barni. Þá er Ashley Bares farin aftur til Bandaríkjanna.

Danka Podovac, sem var áður í herbúðum ÍBV, er hins vegar mætt í Garðabæinn og mætir sínum gömlu félögum í kvöld. Þá er Rúna Sif Stefánsdóttir komin frá Fylki og styrkir bikarmeistarana.

Eyjamenn hafa gengið í gegnum miklar breytingar á milli ára. Fjölmargir leikmenn eru farnir auk þess sem Kristín Erna Sigurlásdóttir verður að öllum líkindum frá keppni út tímabilið vegna meiðsla.

Liðið hefur fengið Rosie Sutton frá Ástralíu, Nadiu Lawrence frá Wales auk þess sem Ana María Escribano Lopez er komin frá Spánarmeisturum Barcelona.

Bein útsending á Vísi hefst rétt fyrir klukkan 18.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×