Skoðun

Taktu afstöðu – stattu upp fyrir þeim þöglu

Fannar Guðni Guðmundsson skrifar
Á landsmóti Samfés, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi, sem fór fram í haust á Ísafirði var kosið í nýtt ungmennaráð samtakanna. Ráðið hélt síðan sitt árlega landsþing ungs fólks í lok mótsins og þar skeggræddi unga fólkið þau málefni sem brann á því. Mikill samhljómur var meðal landsþingsgesta um alvarleika eineltis og var það mat þeirra að það vantaði gagnlega fræðslu um málefnið.

Ungmennaráð Samfés hefur því undanfarna mánuði undir handleiðslu tveggja verkefnastjóra undirbúið námskeið sem það ætlar að fara með út um allt land. Námskeiðið ber heitið „Taktu afstöðu“ og á því ætlar ungmennaráðið að kryfja til mergjar með jafnöldrum sínum hið viðkvæma málefni einelti. Þau hafa búið til fjöruga en jafnframt krefjandi leiki sem fá þátttakendur til að setja sig í spor annarra og velta vöngum yfir öllum hliðum eineltismála. Ungmennaráðið hefur staðfært gagnvirkar æfingar úr mannréttindahandbókinni Kompás út frá einelti eins og það birtist æskunni í dag. Með námskeiðinu vonar ungmennaráðið að hægt verði að skapa umræðu meðal ungs fólks um alvarleika eineltis og búa til samstöðu meðal ungmenna um að taka höndum saman og standa upp fyrir þeim þöglu.

Fyrsta námskeiðið í þessari herferð fór fram í félagsmiðstöðinni Holtinu í Norðlingaholti dagana 22.-23. mars. Frítt var á námskeiðið og fylltust lausu plássin á örskotsstundu.




Skoðun

Sjá meira


×