Lífið

Fólk að missa sig yfir Frank Ocean

Freyr Bjarnason skrifar
Frank Ocean verður í Laugardalshöll í júlí.
Frank Ocean verður í Laugardalshöll í júlí. Nordicphotos/getty

„Það er allt að verða vitlaust,“ segir Ísleifur B. Þórhallsson hjá Senu sem er að skipuleggja tónleika Franks Ocean í Laugardalshöll 16. júlí.

Miðasala á tónleikana hefst á Midi.is og í síma 540-9800 í fyrramálið klukkan 10. „Það hafa ekki verið svona mikil læti í langan tíma, hvað varðar símtöl inn til okkar og tölvupósta til okkar. Það er mikið stress í fólki að ná ekki miðum á morgun,“ segir Ísleifur, spurður út í áhugann fyrir tónleikunum.

Frank Ocean, sem er einn heitasti tónlistarmaður samtímans, gaf út plötuna Channel Orange í fyrra sem þótti ein sú albesta á árinu. „Það er svo langt síðan við höfum verið að selja miða á tónleika til svona ungs markhóps. Loksins erum við að fá ungan og ferskan tónlistarmann og fólk er alveg að missa sig.“

Aðspurður telur hann að miðarnir eigi eftir að seljast skjótt upp í fyrramálið. „Það kæmi mér ekki á óvart ef þetta myndi fara með hvelli, miðað við lætin í dag og undanfarna daga.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.