Þingflokkur Bjartrar framtíðar hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um að tollar og vörugjöld á soja-, hrís-, hnetu-, möndlu- og haframjólk verði felld niður.
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ákveðinn hópur fólks geti ekki neytt mjólkur vegna mjólkurofnæmis eða mjólkuróþols. Fyrir þennan hóp séu staðgengdarvörur mjólkur mikilvægur þáttur þess að viðhalda eðlilegum lífsgæðum. Umtalsverður verðmunur er hins vegar á innlendri kúamjólk og innfluttum staðgegndarvörum. Einn lítri af hreinni sojamjólk kostar t.d. 369 krónur en lítri af nýmjólk 128 krónur.
Í greinargerðinni segir ennfremur að verulegt tilefni sé til þess að draga úr þessum mun enda sé ekki réttlátt að refsa þeim fjárhagslega sem af einhverjum ástæðum kjósa að neyta ekki mjólkur.
Vilja fella niður tolla á soja- og hnetumjólk
Höskuldur Kári Schram skrifar
