Innlent

Verðhækkanir í skjóli sykurskatts

Sykurskattur leggst nú á vörur í hlutfalli við sykurinnihald. Fréttablaðið/valli
Sykurskattur leggst nú á vörur í hlutfalli við sykurinnihald. Fréttablaðið/valli
„Það eru engin efnisleg rök sem styðja við 10% verðhækkun á brauðmeti vegna þessarar nýju skattheimtu, nema brauðið sé eingöngu gert úr sykri," segir Henný Hinz, hagfræðingur hjá ASÍ, um sykurskattinn svokallaða, sem lagður var á ákveðnar matvörur þann 1. mars síðastliðinn. Hún segir 1-3% verðhækkun á matvörur vegna gjaldtökunnar eðlilega, en gjaldið sé reiknað í hlutfalli við sykurinnihald matvælanna.

Á síðu aðildarfélaga ASÍ, Vertu á verði, má finna margar athugasemdir frá neytendum þess efnis að verslanir hafi hækkað verð verulega frá þeim degi er sykurskatturinn var lagður á. Þar á meðal eru nokkrar er snúa að hækkun á brauðmeti sem í sumum tilfellum hefur hækkað um allt að 10% í verði. Sé skýringa leitað er sykurskattinum kennt um. Það er að Hennýjar mati óeðlilegt: „Það ætti að taka nokkra mánuði fyrir gjaldtökuna að koma fram í verðhækkunum."

Henný segir að sykurskatturinn skili sér þó fyrr í verðhækkunum ferskvara."

Sykurskatturinn felur í sér hækkanir vörugjalda á matvæli sem innihalda ákveðið magn sykurs eða sætuefna en stjórnvöld áætluðu með þessu að auka tekjur í ríkissjóð um 800 milljónir. Skattheimtan byggir á 210 króna vörugjaldi á hvert kíló af sykri, sem er hækkun um 250%, en matvæli með viðbættum sykri, eða sætuefni, bera vörugjaldið í réttu hlutfalli við sykurmagn.

Bæði Neytendasamtökin og ASÍ hafa fengið athugasemdir frá neytendum sem óánægðir eru með verðhækkanir undanfarið. Henný segir of snemmt að áætla hvort það sé vegna sykurskattsins.

„Þetta er ógagnsæ skattheimta og erfitt fyrir okkur og neytendur að fylgja henni eftir. Þar af leiðandi er alltaf hætt við að menn nýti tækifærið og noti sykurskattinn sem átyllu til þess að hækka verð almennt og umfram það hlutfall sem gjaldtakan segir til um."

- mli




Fleiri fréttir

Sjá meira


×