Enski boltinn

Ekki heyrt um Paulinho og kannaðist ekki við Van der Vaart

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Benoit Assou-Ekotto.
Benoit Assou-Ekotto. Nordicphotos/Getty
Margir knattspyrnumenn eru sagðir aðeins spila peninganna vegna. Benoit Assou-Ekotto, bakvörður Tottenham, er hins vegar ófeiminn við að viðurkenna það.

Assou-Ekotto segist engan annan áhuga hafa á íþróttinni en faglegan og veit stundum ekki hver næsti andstæðingur liðsins er eða hvort um deildarleik eða bikarleik er að ræða.

Ekotto hafði til að mynda ekki heyrt af því að Luis Suarez hefði bitið Branislav Ivanovic í leik Liverpool og Chelsea á síðustu leiktíð. Það kom fram í viðtali hans við Guardian.

Í viðtali í gær við Goal viðurkenndi Assou-Ekotto að hann hefði aldrei heyrt um nýjasta liðsfélaga sinn, Brasilíumanninn Paulinho. Leikmaðurinn kostaði 17 milljónir punda og hefur verið í sviðsljósinu eftir góða frammistöðu með Brasilíu í Álfukeppninni á dögunum.

Kamrúninn 29 ára viðurkenndi einnig að hafa ekki þekkt til Rafael van der Vaart þegar hann gekk í raðir Lundúnarliðsins sumarið 2010. Assou-Ekotto tók í höndina á honum á æfingasvæði félagsins en kunni engin deili á Hollendingnum sem hafði borið fyrirliðaband Holland í úrslitaleik HM nokkrum vikum fyrr.

Viðtalið má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×