Enski boltinn

Hefur tröllatrú á Aspas og Alberto

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Luis Alberto og Iago Aspas.
Luis Alberto og Iago Aspas. Nordicphotos/Getty
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, telur að spænsku leikmennirnir Iago Aspas og Luis Alberto muni láta til sín taka á Anfield á næsta tímbili.

Aspas kom til Liverpool frá Celta Vigo á 7,7 milljónir punda en Alberto frá Sevilla á 6 milljónir punda. Alberto lék með b-liði Barcelona á síðustu leiktíð.

„Þegar við settumst niður á síðasta tímabili ræddum við um þörf liðsins fyrir gæðaleikmenn með hugarfar sigurvegarans," sagði Rodgers við staðarblaðið Liverpool Echo.

„Iago er keppnismaður en um leið með mikil gæði," sagði Rodgers um spænska framherjann. Aspas skoraði 12 mörk í 33 leikjum með Celta Vigo í spænsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

„Luis er mjög ungur leikmaður en hefur spilað mikilvæga leiki svo það verður ekki nýtt fyrir hann," sagði Rodgers. Norður-Írinn benti á að Alberto hefði mikinn leikskilning og gæti skorað mörg mörk.

„Pressan er engin. Við sáum Philippe Coutinho, sem rétt tvítugur kom til okkar með svipaðan bakgrunn, var ungur en með reynslu. Hann sló í gegn í úrvalsdeildinni sína fyrstu sex mánuði," sagði Rodgers.

„Luis er líka hávaxinn og vonandi getur hann gert góða hluti fyrir okkur líkt og landar hans frá Spáni undanfarin ár."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×