Skoðun

Vesenið alltaf á þessu gamla fólki

Kristín Guðmundsdóttir skrifar
Sértu komin á efri ár og búsettur í Reykjavík er margt sem þú þarft að læra, þurfir þú að nýta þér aðstoð frá borginni. Að fara í bað er þá ekki bara að fara í bað. Þú þarft að velja þér baðdag (hann er einu sinni í viku) sem ekki ber upp á aðfangadag, gamlársdag o.s.frv., þá er böðun ekki í boði. Gamalmenni þurfa því að liggja yfir dagatalinu um áramót og finna góðan dag ætli þau að fá jóla- og áramótaböðun. Ef þau hafa þessa getu, gætu þau orðið heppin og dagurinn þeirra samþykktur. Annars verða þau að borða jólasteikina…skítug, kveðja gamla árið…skítug og bíða aðra viku eftir að fá að komast í snertingu við vatn. En þurfa þau endilega að vera hrein? Þetta eru bara þrjár vikur af heilum 52 í árinu. Og þar sem þrif á heimilum þeirra eru bara aðra hvora viku er varla skítugt hjá þeim, það fellur bara ein vika út.

Það góða við þessa þjónustu er að gamla fólkið kynnist fjöldanum öllum af starfsfólki borgarinnar. Hverjum þykir ekki gaman að fá alltaf nýtt fólk til að baða sig? Sumir þeirra eru jafnvel með annað tungumál svo tvær flugur eru slegnar í einu höggi, böðun og tungumálakennsla…allt fyrir eldri borgara. Og þetta eru m.a.s. mörg mismunandi tungumál. Þá kemur gúggul transleit að góðum notum. Eru ekki allir með tölvu og internet?

Ertu ekki á bíl?

Sértu kominn í þá stöðu að þú treystir þér ekki til að búa einn í eigin húsnæði er best fyrir þig að vera vel illa farinn. Þá geturðu kannski sótt um hjúkrunarpláss. Sé staða þín hins vegar félagsleg einangrun (illskiljanlegt þó þar sem þú færð „heimsókn“ að minnsta kosti einu sinni í viku, 1-2 klukkustundir frá borginni), hættur að matreiða, smá svimi í gangi, manst ekki allt eins vel og áður o.s.frv. þá er möguleiki á að sækja um þjónustuíbúð. Þú nærð í umsókn hjá félagsþjónustunni, ferð til læknis sem metur þig og endar svo hjá skattinum. Sem sagt, læknisvottorð og skattayfirlit verða að fylgja þessari umsókn þinni.

Ertu ekki á bíl? Hmm…að verða níræður? Við leysum úr því.

Ferðaþjónusta eldri borgara sér um að koma þér á staðinn. Hefurðu ekki sótt um? Þú verður að gera það. Er búið að sækja um…hvenær? Fyrir rúmu ári? Gengur ekki, þú verður að muna að endurnýja umsóknina einu sinni á ári. Byrjum þar og þá ertu frjáls ferða þinna. Mundu bara að panta bílinn deginum áður.

Umsóknin kemst á réttan stað með fylgiskjölum. Biðlistinn er langur svo þú verður að muna að láta vita af þér á sex mánaða fresti, annars gleymist þú eða týnist í kerfinu.

Gleymska er engin afsökun þótt þú sért gamall, starfsmenn borgarinnar geta ekki staðið í að fylgjast með þér og þínum þörfum. Þeir fá laun fyrir allt annað og „veigameira“.

Þetta áttu að vita

Sem eldri borgari geturðu sótt um tímabundna vistun, t.d. á Landakoti. Þar er vissulega unnið þarft og gott starf. Þú ert byggður upp, bæði líkamlega og andlega. Þú hittir fólk á þínum aldri og nýtur þess að vera til…þú ert til!

Þegar Landakot hefur lokið sínu góða starfi tekur við dagvistun. Allt gengur smurt, umsóknin löngu farin og þú endurnærður, tilbúinn í að halda áfram. Mundirðu eftir að hringja og ýta á eftir umsókninni? Enginn sem sagði þér það? Þetta áttu að vita, kominn á þennan aldur. Manstu ekki númerið? Var það skrifað niður fyrir þig? Minnisleysi og elliglöp engin afsökun, þú getur bara gúgglað það. Borgin hefur jú öðrum málum að sinna. Þú verður að muna það. Biðlistinn er langur og nú þarftu bara að bíða í u.þ.b. hálft ár eftir plássi.

Þá er gott að hafa „vini“ þína sem baða þig og kenna þér tungumál einu sinni í viku. Þú verður þá ekki einmana á meðan eða kominn aftur á þann stað sem þú varst áður en þú fékkst inni á Landakoti…eða hvað?

Ertu ekki búinn að strita alla ævi? Ertu ekki búinn að skila þínu verki og gott betur? Þú hlýtur þá að geta munað einfalda hluti, kunna á tölvu og umfram allt að skilja að það er ekki hægt að ætlast til að fólk í fullri vinnu með alla þá tækni sem er í dag geti fylgst með þér og þínum þörfum. Það hefur ekki tíma til að athuga hvar þú ert á biðlista þótt það losni pláss einhvers staðar. Það stjórnar ekki að aðfangadagur beri upp á þinn baðdag, jafnvel þótt jólahátíðin hefjist ekki fyrr en kl. 18.00.

Hver hlakkar ekki til að verða gamall í Reykjavík?




Skoðun

Sjá meira


×