Innlent

Tilgangslaust að banna munntóbak ef reykingar eru leyfðar

Höskuldur Kári Schram skrifar
Yfirlæknir og lækningaforstjóri heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins telja að lítill sem enginn ávinningur sé af því að banna munntóbak á meðan enn sé hægt að kaupa sígarettur og annað reyktóbak á markaðnum. Þetta kemur fram í umsögn þeirra um frumvarp velferðarráðherra um bann við sölu skrotóbaks.

Frumvarpi velferðarráðherra er ætlað að koma veg fyrir innflutning, framleiðslu og sölu tóbaksvara sem sérstaklega er beint að ungu fólki. Að auki er í frumvarpinu lagt til að skrotóbak verði bannað hér á landi.

Þrettán umsagnir hafa borist velferðarnefnd Alþingis sem hefur frumvarpið nú til umfjöllunar.

Í umsögn landlæknis kemur fram að neysla reyklauss tóbaks hafi aukist verulega - einkum hjá ungu fólki og því muni frumvarpið styrkja tóbaksvarnir.

Lúðvík Ólafsson, lækningaforstjóri, og Þorsteinn Blöndal, yfirlæknir hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, telja hins vegar - í sinni umsögn - að lítill sem enginn ávinningur sé af því að banna munntóbak á meðan enn sé hægt að kaupa sígarettur og annað reyktóbak. Lúðvík segir að það hljóti að vera betra að hafa á boðstólnum vöru sem sé ekki eins hættuleg og reyktóbak.

„Það eru til rannsóknir sem sýna það að munntóbak er miklu síður hættulegt en reyktóbak. það er víðtækari áhrif sem reyktóbak hefur á heilsuna, meðal annars lungnasjúkdóma beint sem munntóbak gerir ekki," segir Lúðvík.

Um 15 prósent karla á aldrinum 18 til 24 ára nota munntóbak daglega samkvæmt talnabrunni landlæknis. Lúðvík spyr hvað þessi hópur muni gera þegar munntóbak verður ekki lengur fáanlegt.

„Við erum bara að benda á að munntóbak öll form þess eru mun hættuminni en reykingar og þess vegna sé kannski ekki skynsamlegt að banna þetta form þegar að hitt formið er leyft, reykingar, að gefa fólki kost á hættuminna formi af neyslu níkótíns," segir Lúðvík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×