Innlent

Félag áhugakvenna um breytingaskeiðið stofnað í gær

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Svitaköst eru algengt einkenni breytingaskeiðsins.
Svitaköst eru algengt einkenni breytingaskeiðsins. MYND/AFP

Félag áhugakvenna um breytingaskeiðið var formlega stofnað í gær. „Löngu tímabært“, segir Edda Arinbjarnar, félagsfræðingur og formaður nýstofnaðs félags.

 

Ákveðið feimnismál

Edda segir breytingaskeiðið lengi  hafa verið ákveðið feimnismál í samfélaginu. Margar konur vita ekki hvert þær eiga að snúa sér þegar þessi tími rennur upp. „Konur tala um þetta sín á milli en opinber umræða um þessi  mál hefur verið fátækleg. Það þarf að gera breytingaskeiðið sýnilegra fyrir konur á öllum aldri.“



Konur finna fyrir breytingaskeiðinu á misjafnan hátt. Svitaköst, skertur svefn og persónuleikatruflanir á borð við gleymsku eru algeng einkenni. Slíkt getur haft mikil líkamleg og andleg áhrif.

 

Vilja hnitmiðaða og örugga umræðu

Edda telur mjög mikilvægt að undirbúa konur fyrir breytingaskeiðið. „Þetta þarf að ræða á mjög breiðum grunni þar sem breytingarnar eru mjög einstaklingsbundnar. Það eru þó mjög mikið af misvísandi upplýsingum til staðar. Við viljum að hnitmiðuð og örugg umræða um þessi mál verði sem aðgengilegust.“



Stofnkonur félagsins stefna á að halda stofnfund sem allra fyrst og í kjölfarið  ráðstefnur þar sem fagaðilar ræða málefnið. Edda segir þær stöllur einnig vinna í að koma upp öflugri heimasíðu með haustinu. Í millitíðinni bendir hún á spjallhópinn Breytingaskeiðið á facebook þar sem mjög virk umræða fer fram.

Edda Arinbjarnar er formaður Félags áhugakvenna um breytingaskeiðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×