Innlent

Leita falinna handrita frá musterisriddurum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Leiðangursmenn hafa þegar kannað nokkurn hluta hvammsins í Skipholtskrók með rafsjá og halda leitinni áfram nú í júlí.
Leiðangursmenn hafa þegar kannað nokkurn hluta hvammsins í Skipholtskrók með rafsjá og halda leitinni áfram nú í júlí. Mynd/Gopfrettir.com
„Það eru nógu áhugaverðar vísbendingar til að við séum reiðubúnir að leggja þetta á okkur,“ segir Þórarinn Þórarinsson arkitekt og liðsmaður hóps sem enn leitar dýrgripa frá miðöldum í Skipholtskrók á Hrunamannaafrétti.

Leitin er byggð á vísbendingum sem einn leiðangursmanna, Ítalinn Giancarlo Gianazza, les úr kveðskap Dantes og málverkum endurreisnarmálaranna da Vincis, Botticellis og Rafaels. Mögulegt sé að musterisriddarar hafi á þrettándu öld komið undan til Íslands mikilvægum handritum úr frumkristni sem páfastóli hafa þótt stafa ógn af.

Eftirgrennslanin í Skipholtskrók hófst sumarið 2004. Að sögn Þórarins mun hópur fjögurra Ítala og fjögurra Íslendinga halda leitinni þar áfram með rafsjá í nokkra daga um miðjan júlí.

„Ef okkur líst á eitthvað þá gröfum við holu. Við höfum ekkert fundið,“ segir Þórarinn um árangurinn fram til þessa.

Að mati Þórarins og félaga hlýtur Dante að hafa komið í Skipholtskrók við ánna Jökulfall og dvalið þar. Lýsingar skáldsins í Hinum guðdómlega gleðileik af staðháttum séu svo ótrúlega nákvæmar.

„Þetta er stór hvammur sem er alveg eins og hringleikahús sem Dante lýsir. Það er spurning hvar í hringnum þetta er – ef eitthvað er,“ segir Þórarinn sem kveður líklegast að um einhvers konar rit sér að ræða. Þó sé langt í frá öruggt að nokkur hlutur muni finnast. Ljóð Dantes geti allt eins verið um leit mannsins að andlegum þroska.

„Viska í einhverju formi er það eina sem hugsandi menn hafa talið þess virði að koma undan alla leið hingað,“ telur Þórarinn. „Það var viskan sem menn vildu feiga. Illviljuðum og gráðugum mönnum á öllum tímum er meinilla við sannindi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×