Innlent

Óvissa í skipulagsmálum stendur atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum

Heimir Már Pétursson skrifar
Fiskeldi í Súðavík
Fiskeldi í Súðavík Mynd/ Vilhelm

Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir ótækt að skipulagsvaldi sveitarfélaga ljúki nánast í fjöruborðinu, en úrskurðarnefnd umhverfismála hefur úrskurðað að fyrirhugað fiskeldi í Ísafjarðardjúpi skuli fara í umhverfismat. Halldór segir algerlega óljóst hvar skipulagsvaldið liggi hvað þetta varðar.

Fyrirhuguð sjö þúsund tonna sjókvíseldi í Ísafjarðardjúpi, þar á meðal á laxi, skal háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar umhverfismála.  Landssamband veiðifélaga telur að um áfangasigur sé að ræða. Á síðasta ári ákvað Skipulagsstofnun að fyrirhugað fiskeldi í Ísafjarðardjúpi skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum, en Landssambandið kærði þá ákvörðun. Í tilkynningu frá Landssambandi veiðifélaga segir að of snemmt sé að fagna fullnaðarsigri í málinu því umhverfismatið hafi enn ekki farið fram og óvíst um niðurstöðu þess. Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir skipulagsvald sveitarfélaganna nánast enda niður í fjöru.

„Ég hef talið lengi og sveitarstjórnarfólk á Íslandi almennt talað fyrir því mjög lengi og þá sérstaklega á Vestfjörðum þar sem erm mikið um flesta firði landsins og víkur."

Það sé óhæft að skipulagsvald sveitarfélaganna nái ekki lengra en 150 metra út fyrir stórstreymisfjöruborð.

„Við viljum geta skipulagt firði og víkur að minnsta kosti því að það er mikilvægt að geta ákveðið hvaða svæði eiga að vera undir eldi, námavinnslu í hafi og svo framvegis."

Halldór segir ekki alveg ljóst hvar skipulagsvald úti á fjörðum og víkum liggi í dag. „Það er verið að sækja um námaleyfi um að taka steypumöl á hafsbotni til eins ráðuneytis en verið að sækja um eldisleyfi til annars."

Þá séu ákveðn svæði skilgreind sem hafnarsvæði og þar liggi skipulagsvaldið í enn einu ráðuneytinu. Nú vilji margir fara út í fiskeldi á fjörðum og víkum og það sé fagnaðarefni. „Nú væri heldur betur gott að það væri búið að skipuleggja þau svæði og ef það hefði verið hlustað á sveitarfélögin þaá væri löngu búið að því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×