Innlent

Almannavarnadeild vekur athygli á stormviðvörun yfir hátíðirnar

Stefán Árni Pálsson og Boði Logason skrifar
Áfram slæm veðurspá á landinu yfir jólin
Áfram slæm veðurspá á landinu yfir jólin
Veðurhorfur á landinu öllu eru enn slæmar, en lægðin sem gengur yfir landið gæti verið dýpsta lægð 21. aldarinnar.

Samkvæmt Veðurstofu Íslands verður veðrið sérstaklega slæmt á Vestfjörðum og gætu snjóflóð fallið á vegi. Ekki er talinn hætta á að þau falli í byggð.

Undir Vatnajökli gæti vindur í hviðum farið yfir 40 metra á sekúndu á aðfangadagskvöld og fram á jóladag.

Fólk er því hvatt til að fara alls ekki veginn undir jöklinum.

Veðurhorfur  á höfuðborgarsvæðinu er ívið skárri en annarsstaðar á landinu en samt sem áður er útlit fyrir að töluverður vindur verði í Reykjavík yfir hátíðirnar. Töluverð úrkoma verður á höfuðborgarsvæðinu næstu dag.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vekur athygli á viðvörun frá Veðurstofu Íslands vegna norðanhvassviðris eða storms um jólahátíðina.

Spáð er norðan hvassviðri eða -stormi (vindhraða 15-23 m/s) víða um land á morgun aðfangadag, jóladag og fram á annan í jólum.  Veðrinu fylgir talsverð snjókoma og skafrenningur Norður- og Austanlands og því ekkert ferðaveður á þeim slóðum.

Dagana þar á eftir má búast við áframhaldandi norðaustanátt með éljum fyrir norðan og austan og er fólki bent á að fylgjast vel með fréttum af veðri og færð áður en farið er að stað.

Veðurhorfur næstu daga: Norðaustan 8-15 m/s á Vestfjörðum, suðvestan 5-10 S-til, en annars hæg breytileg átt.  Slydda eða snjókoma með köflum, en þurrt að kalla SA-lands.  Hvessir á NV-verðu landinu í dag, 18-25 m/s og snjókoma þar seinnipartinn.  Mun hægari vindur og dálítil slydda eða snjókoma annars staðar, en úrkomulítið á SA- og A-landi.  Vaxandi norðaustanátt á öllu landinu í kvöld og nótt, 15-25 á morgun og snjókoma eða él fyrir norðan, en þurrt að kalla syðra.  Frost 1 til 5 stig til landsins, en víða frostlaust við ströndina.

Vegagerðin vekur athygli á að vegna snjóflóðahættu má búast við að veginum um Ólafsfjarðarmúla verði lokað upp úr kl.15:00 í dag og óvíst er um hvort opnað verði aftur fyrr en eftir jól.

Vegurinn um Súðavíkurhlíð er opinn en ef veðurspá gengur eftir má búast við að honum verði lokað undir kvöld vegna snjóflóðahættu, staðan verður metin kl.17:00 í dag.  Óvíst er hvenær vegurinn verður opnaður aftur ef af lokun verður.

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar segir að félagið sé ekki með neinn sérstakan viðbúnað vegna óveðursins. "Okkar menn eru samt tilbúnir eins og alltaf - þeir eru á stanslausri bakvakt," segir Ólöf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×