Innlent

Vetrarsólstöður í dag

Stefán Árni Pálsson skrifar
Í dag laugardaginn 21. desember 2013 verða vetrarsólstöður, nánar tiltekið í Reykjavík samkvæmt Almanaki þjóðvinafélagsins kl. 17:11. Frá þeirri stundu fer hádegissól að hækka dag frá degi.

„Mörg þúsund ár, sennilega tugir þúsunda ára, eru síðan menn byrjuðu að fagna þessum tímamótum í náttúrunnar ríki og halda hátíðir á sumar- og vetrarsólstöðum. Er skemmst frá að segja að jólin tóku á sínum tíma við af hátíð sem upprunalega var haldin í tilefni vetrarsólstaða,“ segir Þór Jakobsson, veðurfræðingur, aðsendri grein sem birtist í Fréttablaðinu á fimmtudaginn.

„Meginatriði hinnar árlegu sólstöðuhátíðar er sólstöðumínútan sem sólstöðugönguhópurinn hefur nefnt svo, tímamótin tvenn á för jarðar um sólu. Við stöldrum við, sólstöðumínútuna, og íhugum í þögn. Það er eitt sem er magnað við sólstöðumínútuna ef svo mætti segja: hún er á sama tíma um alla jörð! Þetta finnst mörgum augljóst en það er draumur sólstöðuhópsins að fólk víðs vegar um lönd komi sér saman um að fagna sólstöðumínútunni, þá samtímis um alla jörð í „meðmælagöngu með lífinu og menningunni“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×