Skoðun

Sólstöðumínútan 17:11, 21. 12. 2013

Þór Jakobsson skrifar
Laugardaginn 21. desember 2013 verða vetrarsólstöður, nánar tiltekið í Reykjavík samkvæmt Almanaki þjóðvinafélagsins kl. 17:11. Frá þeirri stundu fer hádegissól að hækka dag frá degi.

Enn mun þó vetur ríkja því að sinn tíma tekur það sólina að verma lofthjúpinn svo að fari að vora. Veðurfar á hverjum stað mótast af úthöfum og lofthjúpi sem vinna í sífellu að því að fleyta ofgnótt sólarorkunnar frá miðbaug í átt til pólanna.

Mörg þúsund ár, sennilega tugir þúsunda ára, eru síðan menn byrjuðu að fagna þessum tímamótum í náttúrunnar ríki og halda hátíðir á sumar- og vetrarsólstöðum. Er skemmst frá að segja að jólin tóku á sínum tíma við af hátíð sem upprunalega var haldin í tilefni vetrarsólstaða.

Inntakið breyttist en auk þess hafa hátíðahöld nútímans orðið viðskila við sjálfar vetrarsólstöðurnar, daginn sem þær eru.

Nú eru bráðum þrír áratugir síðan fyrsta árlega sumarsólstöðugangan í Reykjavík og nágrenni var farin. Lítill hópur samherja hefur skipulagt gönguna og reynt að koma á nýrri hefð sem við vonum að haldist og eflist með tímanum. Leiðin var lengi framan af breytileg frá einu ári til annars en síðasta áratuginn var gengin sama leiðin nokkur ár í röð, m.a. hringleið um Öskjuhlíð nokkrum sinnum og þrjú undanfarin ár um Viðey. Tilgangur sólstöðugöngunnar er í senn jarðbundinn og háfleygur.

Annars vegar er auðvitað heilsusamlegt og upplífgandi þegar sól er hæst á lofti að taka þátt í rólegri hópgöngu fólks á öllum aldri, njóta samveru skyldmenna eða kynna við ókunnuga – og þar við bætist fróðleikur leiðsögumanna um það sem fyrir augu ber á göngunni, fróðleikur um náttúru og sögu. En hins vegar er sólstöðugöngunni ætlað að vera dálítil stund til að leiða hugann að ráðgátum tilverunnar og gleðjast yfir lífinu þrátt fyrir strit og erfiðleika, gleðjast yfir því að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í hinu mikla leikriti tilverunnar nokkur ár. Fyrir hundrað árum voru við ekki til og eftir önnur hundrað verðum við ekki til, altént ekki hér!

Meginatriði hinnar árlegu sólstöðuhátíðar er sólstöðumínútan sem sólstöðugönguhópurinn hefur nefnt svo, tímamótin tvenn á för jarðar um sólu. Við stöldrum við, sólstöðumínútuna, og íhugum í þögn. Það er eitt sem er magnað við sólstöðumínútuna ef svo mætti segja: hún er á sama tíma um alla jörð! Þetta finnst mörgum augljóst en það er draumur sólstöðuhópsins að fólk víðs vegar um lönd komi sér saman um að fagna sólstöðumínútunni, þá samtímis um alla jörð í „meðmælagöngu með lífinu og menningunni“.

Nú á vetrarsólstöðum skulum við staldra við andartak og njóta þess að furða okkur á eigin tilveru. Það borgar sig. Sjáumst svo í næstu sumarsólstöðugöngu.




Skoðun

Sjá meira


×