Innlent

Björgunarsveitarmenn blása á slæma veðurspá

Höskuldur Kári Schram skrifar
MYND/anton brink
Árleg flugeldasala björgunarsveita hefst á morgun. Veðurspáin fyrir gamlárskvöld er slæm en þrátt fyrir það vonast menn eftir góðri flugeldasölu.

Slysavarnarfélagið Landsbjörg heldur utanum flugeldasölu björgunarsveita en hátt í hundrað sölustaðir verða opnaðir á morgun.

Jón Ingi Sigvaldason hjá Landsbjörgu segir að undirbúningurinn sé á lokastigi.„Það er allt á fullu núna. Við erum að raða í hillur og taka inn vörur,“ segir Jón Ingi.

Veðurstofan gerir ráð fyrir hvassviðri á landinu á gamlárskvöld og það getur sett strik í reikninginn þegar kemur að flugeldasölu. „Veðurspáin hafði töluverð áhrif á söluna í fyrra. Þá var búið að spá slæmu veðri en sú spá rættist ekki. Þannig að við vonumst eftir frábæru veðri á gamlárskvöld eins og hefur meira og minna verið undanfarin tíu ár,“ segir Jón Ingi.

Verð á flugeldum hækkar að meðaltali um sjö prósent á milli ára. „Þetta er útaf hækkun í Kína og á flutningskostnaði. Gengi krónunnar er hins vegar örlítið hagstæðara en það var í fyrra og það hjálpar okkur,“ segir Jón Ingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×