Innlent

Framlög til heilbrigðismála aukin um fjóra milljarða

Heimir Már Pétursson skrifar
Ríkisstjórnin leitar dyrum og dyngjum á síðustu stundu að leiðum til að spara og auka tekjur ríkissjóðs til að auka framlög til heilbrigðismála og skila hallalausum fjárlögum
Ríkisstjórnin leitar dyrum og dyngjum á síðustu stundu að leiðum til að spara og auka tekjur ríkissjóðs til að auka framlög til heilbrigðismála og skila hallalausum fjárlögum mynd/gva
Stjórnarflokkarnir vinna nú hörðum höndum að því að móta breytingatillögur sínar fyrir aðra umræðu fjárlaga sem hefst á Alþingi á morgun.  Yfirstjórnum allra ráðuneyta verður gert að skera niður um fimm prósent.

Tillögur Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um lækkun hámarks barnabóta sem afgreiddar voru úr ríkisstjórn fyrir helgi nutu ekki stuðnings í þingflokkum stjórnarflokkanna, alla vega ekki allra þingmanna Framsóknarflokksins.

Ekki liggur fyrir hvernig fer fyrir hugmyndum um lækkun hámarks vaxtabóta. Bjarni segir menn vera að skoða alla kosti til að tryggja tæplega fjögurra milljarða aukaframlag til heilbrigiðsþjónustunnar án þess að fórna markmiði um hallalaus fjár. Hann vill þó ekki lofa að 500 milljóna afgangur verði á fjárlögunum, eins og gert sé ráð fyrir.

Hvar fannst matarholan?

„Það er kannski rétt að tala um þessar tillögur þegar þær eru fullbúnar og frágengnar frá fjárlaganefndinni. Málið er jú enn á forræði fjárlaganefndar. En ég hef verið að starfa með nefndinni að binda lausa enda og ég horfi bæði á tekju- og útgjaldahliðina. Það er hægt að fara í þetta án þess að að fara í skerðingu á barnabótum,“ segir fjármálaráðherra.

En þær hafi hækkað verulega á þessu ári og verði langt um hærri á næsta ári en þær voru árin 2011 og 2012.

En hvað með vaxtabæturnar?

„Vaxtabæturnar munu taka nokkrum skerðingum hjá þeim sem hæstar hafa tekjurnar,“ segir Bjarni.

Til að mæta ýmsum breytingum á fjárlagafrumvarpinu sem þýða aukin útgjöld ríkissjóðs segir Bjarni að skera verði meira niður á öðrum stöðum.

„Við munum gera aukna, viðbótar aðhaldskröfu, á ráðuneytin. Á skrifstofu ráðuneytanna. Það er um það bil jafnhá fjárhæð eins og hefði að öðru óbreyttu mögulega farið í skerðingar á barnabótum. Það eru ýmsar aðrar niðurskurðartillögur sem liggja á borðinu hér og hvar í fjárlagafrumvarpinu. Engir stórir berandi liðir. En við erum líka að sækja tekjur á tekjuhliðinni m.a. vegna þess að horfurnar á árinu 2014 eru aðeins að skána,“ segir Bjarni Benediktsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×