Innlent

Helgi sá ekki Vigdísi: "Margt sem augað nemur ekki“

Kristján Hjálmarsson og Stefán Árni Pálsson skrifar
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, svaraði í ræðu á Alþingi í dag gagnrýni Helga Hjörvars, þingmanns Samfylkingarinnar, um að hún hafi ekki verið viðstödd umræður um fjáraukalögin í gær.

Vigdís sagði í ræðu sinni að á myndskeiði sæist að hún hefði verið í salnum þegar Helgi var að lýsa eftir henni. Hún sagði jafnframt að það væri margt sem augað sæi ekki en Helgi Hjörvar er nánast blindur.

„Maður undrast að meirihluti fjárlaganefndarinnar sé ekki hér til þess að verja verk sín,“ sagði Helgi Hjörvar í ræðu sinn á Alþingi í gær þegar umræður um fjáraukalögin fóru fram. Hann gagnrýndi hversu slök mætingin á Alþingi væri og þá sérstaklega hjá þeim þingmönnum sem sitja í fjárlaganefnd. Hann gagnrýndi einnig fjárlagatillögur nefndarinnar og kallaði þær sullumbull og skítamix.

„Er það ekki einfaldlega skýringin á því að háttvirtur þingmaður Vígdís Hauksdóttir og háttvirtur þingmaður Guðlaugur Þór Þórðarson eru bara ekkert í salnum því þetta eru einfaldlega tillögur sem ekki samræmast þeim lágmarkskröfum sem verður að gera til meðferðar fjáraukalaga hér í þingi,“ sagði Helgi.

Þegar Helgi lét orðin falla gekk Vígdís í sömu mund framhjá ræðupúltinu og svo virðist sem Helgi hafi ekki áttað sig á því að hún var salnum. Helgi hafði 40 mínútum áður lýst eftir formanninum í ræðu sinni og má heyra hljóðupptöku úr hádegisfréttum Bylgjunnar þar sem heyrist í þingmanninum Helga Hjörvari.

Vigdís svaraði Helga hins vegar í dag og sagði: „Ég vil aðeins slá á þær raddir sem hafa verið hér á Alþingi í dag um að formaður fjárlaganefndar hafi ekki verið hér í þinghúsinu í gær. Ég var stödd hér allt til enda fundarins en það vildi þannig til að þegar ræða háttvirts þingmanns Helga Hjörvars er skoðuð þá sést glögglega að ég labba framhjá ræðupúltinu. En það er virðulegi forseti margt sem augað nemur ekki.“

Hér að ofan má sjá ræðu Vigdísar Hauksdóttir frá því á Alþingi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×