Innlent

Ástandið aldrei verið verra

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Margrét Halldóra Halldórsdóttir, eða Perla eins og hún er kölluð, hefur átt við geðræn vandamál að stríða um árabil, en er að eigin sögn náð miklum bata síðustu mánuði og er í jafnvægi eins og er. Hún hefur aftur á móti aldrei glímt við áfengis eða vímuefnavanda. Perla segir stöðu útigangsfólks aldrei hafa verið verri og úrræðaleysið algjört.

„Þetta er bara skelfilegt. Það hafa aldrei verið fleiri á götunni og fólk er bara að deyja. Ekki bara úr neyslu. Hver getur sofið undir tré í nýstingskulda?,“ segir hún.

Hún segir ekkert einsdæmi að fólk búi í bílum sínum. „Já, ég þekki nokkra. Þegar fólk missir húsnæði sitt og hefur ekki í nein hús að vernda finnst mér ekkert skrítið að það útbúi sér bæli í bílum. Þar er skárra en að vera úti í snjó og rigningu.“

Stofnfundur samtaka um hagsmuni utangarðsfólks verður haldinn í Iðnó í kvöld. Á fundinum verða meðal annars samþykkt lög og kosið í stjórn samtakanna. Þá verður nýtt gistiskýli fyrir útigangsfólk opnað á næstunni. Þrátt fyrir þessar jákvæðu fréttir segir Perla að nauðsynlegt sé að leggja meiri áherslu á málefni heimilislausra.

„Eru ekki grundvallarmannréttindi að hafa þak yfir höfðið? Að eiga heimili? Yfirvöld og borgin verða að hugsa um okkur minni máttar. Ég krefst þess,“ segir Perla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×