Innlent

Stjórn Ríkisútvarpsins hefði getað samið við Pál um nýjan ráðningarsamning

Heimir Már Pétursson skrifar
Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi menntamálaráðherra telur að stjórn Ríkisútvarpsins hafi ekki þurft að auglýsa stöðu útvarpsstjóra á þessum tímapunkti, eins og stjórnin ákvað að gera. Stjórnin hafi haft val.

Í 11. grein laga um Ríkisútvarpið sem tóku gildi í mars á þessu ári segir: „Útvarpsstjóri skal ráðinn til fimm ára í senn og er heimilt að endurráða hann einu sinni“. En Páll Magnússon var fyrst ráðinn útvarpsstjóri árið 2005 og hafði ótímabundinn ráðningarsamning.

Ingvi Hrafn Óskarson, stjórnarformaður Ríkisútvarpsins, segir að ný lög um Ríkisútvarpið feli í sér að stjórnin þurfi að breyta ráðningafyrirkomulagi útvarpsstjóra og festa ráðninguna til fimm ára. Stjórnin hafi komist sameiginlega að þeirri niðurstöðu að  óhjákvæmilegt væri að auglýsa stöðuna núna, af þessu tilefni. Þegar þessi afstaða stjórnar hafi legið fyrir hafi það verið sameiginleg ákvörðun stjórnar og Páls að hann myndi láta af störfum.

Páll segir hins vegar að traustið hafi ekki verið fyrir hendi og því hljóti leiðir að skilja.

Katrín Jakobsdóttir var menntamálaráðherra þegar lögum um Ríkisútvarpið var breytt í vor.

„Ég get nú ekki skilið þessa grein öðruvísi en svo að en að stjórnin hafi talsvert svigrúm til að ákveða hvað hún gerir. Það er að segja að hún geti valið að auglýsa eða ekki. Þannig að ég hef skilið þessa grein þannig,“ segir Katrín.

Þannig að í sjálfu sér hefði stjórnin getað samið við Pál upp á nýjan fimm ára samning?

„Þarna er auðvitað verið að skipta um lagaumhverfi hvað varðar ráðningarkjör útvarpsstjóra og það er auðvitað tekið fram að það þurfi að taka tillit til þess í þeim ákvörðunum sem eru teknar. En eins og þetta er orðað í lögunum þá hefur stjórnin töluvert svigrúm innan þessarar greinar. Þannig skil ég það,“ segir Katrín.

Þannig að hún hefur þetta val, að auglýsa eða gera nýjan ráðningarsamning?

„Já, ég hefði talið það vera skilninginn á greininni,“ segir Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi menntamálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×