Innlent

Háhraðalest á teikniborðinu

Hjörtur Hjartarson skrifar
Runólfur Ágústsson, verkefnisstjóri
Ef áætlanir nokkurra einkafyrirtækja og sveitarfélaga ganga eftir mun háhraðalest á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur verða tekin í gagnið á næstu tíu árum. Í grófri kostnaðaráætlun kemur fram að framkvæmdir vegna verkefnisins nemi ríflega 100 milljörðum króna.

Rútuferðin frá Umferðarmiðstöðinni til Keflavíkurflugvallar tekur um 50 mínútur. Ef draumurinn um háhraðalest verður að veruleika styttist ferðalagið niður í 15 til 20 mínútur.

Hugmyndir um lestarsamgöngur á milli Keflavíkur og Reykjavíkur er ekki ný af nálinni. Ólíkt fyrri áætlunum er nú til athugunar að einkafyrirtæki standi ein að framkvæmdunum.

"Það er kannski tvennt sem veldur því að við förum að skoða þetta aftur. Það er annarsvegar þær miklu tækniframfarir sem hafa orðið í lestarsamgöngum sem hafa gert þær bæði hraðskreiðari og ódýrari. Og hinsvegar mjög mikil fjölgun erlendra ferðamanna gegnum Leifsstöð,"segir Runólfur Ágústsson, verkefnistjóri hjá Verkefnastjórnun og ráðgjöf.

Reitir fasteignafélag átti frumkvæðið að verkefninu og vinnur það nú með Eflu, Ístaki og fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans.

Fyrstu drögin gera ráð fyrir að leiðin yrði um 40-50 kílómetrar og yrði meðalhraði um 188 kílómetrar á klukkustund. Lestin myndi verða ofanjarðar frá Keflavíkurflugvelli að Hafnarfirði en færi í jarðgöng. Ekki liggur fyrir hvar endastöðin yrði en líklega verður hún þar sem Umferðarmiðstöðin stendur nú.

"Við erum búnir að gera frumgreiningu á fjárfestingakostnaði upp á rúmlega 100 milljarða króna, sem er auðvitað gríðarlega stór fjárfesting. Við erum núna að reikna okkur í gegnum rekstarkostnað. Við höfum nokkuð þokkalega mynd af mögulegum tekjum."

Að sögn Runólfs er næst verkefni að púsla þessu saman og í kjölfarið meta hugsanlega arðsemi þess að koma á fót háhraðalest. En hvenær má reikna með háhraðalest fari að þjóta á milli Keflavíkur og Reykjavíkur?

"Okkur er sagt af sérfræðingum að frá þeim tíma sem ákvörðun verður tekin þangað til lest gæti farið að rúlla af stað, gætu liðið svona sjö til tíu ár,"segir Runólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×