Innlent

Kennarar berskjaldaðir fyrir ásökunum

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Kennarar eru berskjaldaðir. Þetta segir formaður félags grunnskólakennara sem telur alltof mörg smávægileg mál rata inn á borð barnaverndanefndar sem hægt væri að leysa innan skólans.

Mál Ragnars Þór Péturssonar, fyrrverandi kennara í Norðlingaskóla, hefur vakið talsverða athygli á síðustu dögum. Skólayfirvöldum í Reykjavík barst ábending í skjóli nafnleyndar þar sem Ragnar Þór var ásakaður um að hafa brotið kynferðislega á barni meðan hann starfaði sem kennari. Ásökunin var úr lausu lofti gripin og var Ragnar Þór mjög ósáttur með málsmeðferð skólayfirvalda. Ragnar fékk aldrei að vita hvaða ásakanir voru bornar á hann og lét hann af störfum sem kennari í kjölfarið.

Lítil og saklaus mál geta orðið risavaxin

Mörg mál rata inn á borð barnaverndarnefndar þar sem kennarar eru sakaðir um brot gegn nemendum sínum. Formaður félags gunnskólakennara segir skort á verklagsreglum. Auðvelt væri að koma í veg fyrir að lítil og saklaus mál verði risavaxinn með tilheyrandi afleiðingum.

„Það vantar einhverjar verklagsreglur um það á hvaða stigi á að taka málin út úr skólanum. Hvenær er ástæða til þess að málin fari til fræðsluyfirvalda, til barnaverndaryfirvalda eða jafnvel til lögreglu? Við fáum of mikið af málum sem við myndum flokka sem mjög smávægileg en verða af risastórum málum,“ segir Ólafur. Hann telur óeðlilegt að hægt sé að senda inn ábendingar um brot kennara í skjóli nafnleyndar.

„Það er eitt að vera nafnlaus og annað að njóta nafnleyndar. Í svona máli virðist ekki vera hægt að rekja um hvað málið snýst, frá hverjum það kemur eða kanna sannleiksgildi þess. Við kennarar erum berskjaldaðir,“ segir Ólafur Loftsson.

Reykjavíkurborg sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem greint er frá því að rannsókn á máli Ragnars Þórs hafi lokið rúmum þremur vikum eftir að tilkynning barst til skóla- og frístundasviðs. Könnun Barnaverndar Reykjavíkur leiddi ekkert í ljós er studdi tilkynninguna. Hvorki nefndarmenn né yfirmenn skóla- og frístundasviðs vildu tjá sig við fréttastofu í dag vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×