Innlent

Atvinnuþáttaka aukist frá í fyrra

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
mynd/Vilhelm Gunnarsson
Atvinnuleysi í nóvember var 4,2 prósent samkvæmt Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Samanburður milli ára sýnir að atvinnuþátttaka hefur aukist frá því í nóvember í fyrra.

Samkvæmt rannsókn Hagstofu hefur atvinnuþátttaka aukist um 2,7 prósentustig, hlutfall starfandi aukist um 2,6 prósent og hlutfall atvinnulausra er nánast það sama.

Þegar litið er á þróun leitni síðustu 12 mánaða hefur fólki á vinnumarkaði fjölgað um 4 prósent og fjöldi starfandi aukist um 4,1 prósent. Fjöldi utan vinnumarkaðar fækkar um 9 prósent og fjöldi atvinnulausra hefur hækkað um 1 prósent.

Nú í nóvember voru að jafnaði 182.600 manns á vinnumarkaði og af þeim voru 175.000  starfandi og 7.700 í atvinnuleit.

Vinnumarkaðsrannsóknin er hluti af rannsóknum Evrópusambandsins og fylgir hún alþjóðlegum skilgreiningum ILO og Eurostat.  Samkvæmt skilgreiningunni sem Hagstofan notast við teljast þeir atvinnulausir sem voru án atvinnu í viðmiðunarviku könnunarinnar

Í frétt Hagstofunnar kemur fram að mikilvægt er að átta sig á því að munur er á þessari mælingu og mælingum Vinnumálastofnunar sem mælir skráð atvinnuleysi þar sem menn verða að uppfylla skilyrði skráningar á hverjum tíma til að teljast atvinnulausir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×