Innlent

Slysalausir dagar í desember

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu biðlar til allra í umferðinni að huga að hættum í umferðinni og gera þá daga sem eftir eru af árinu slysalausa.

Umferðarslysum hefur fjölgað nokkuð það sem af er ári miðað við sama tímabil í fyrra. „Það er óásættanlegt.  Lögregla bendir á að slys má í flestum tilvikum rekja til óaðgæslu eða glannaskaps vegfarenda. Á því þurfa þeir sjálfir að taka og tryggja þannig að þeir valdi ekki öðrum þjáningu eða skaða sem aldrei verður bættur,“ segir í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Því bendir lögreglan ökumönnum á þá hættu sem stafi af of miklum hraða og stuttu bili milli bíla í þéttri umferð á morgnana og kvöldin, þegar skyggni er lítið og götur hálar.

„Með því að gæta að þessu tvennu, hraða og bili milli bíla, geta ökumenn komið í veg fyrir aftanákeyrslur sem eru orsakavaldur allt of margra slysa.“

Einnig bendir lögreglan ökumönnum að gæta að ökuhraða hvar sem gangandi vegfarendur eru á sveimi. „Of oft hefur það gerst á þessu ári að ekið er á gangandi eða hjólandi vegfarendur í íbúðahverfum, jafnvel á leið yfir gangbraut. Því verður að linna.“

Aðrir vegfarendur, gangandi og hjólandi, eru einnig hvattir til að huga að sínu öryggi með því að vera sýnilegir í umferðinni.

„Það er trú lögreglu að umferðaröryggi náist best fram með breyttu og bættu viðhorfi vegfarenda til umferðar. Að þeir finni til ábyrgðar sinnar, hagi sér í samræmi við hana og krefjist þess sama af öðrum.“

„Stöndum undir ábyrgð okkar í umferðinni og gerum þá daga slysalausa sem eftir eru af árinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×