Innlent

Ekki ESB sem slítur viðræðunum

Hjörtur Hjartarson skrifar
Engin loforð voru gefin þess efnis að IPA styrkjum yrðu áfram veittir til þeirra verkefni sem þegar hafði verið ýtt úr vör þegar utanríkisráðherra ákvað að gera hlé á aðildarviðræðum.

Þetta segir yfirmaður samninganefndar hjá ESB. Ísland uppfylli ekki skilyrði fyrir styrkjunum og því ekki réttlætanlegt að halda greiðslu þeirra áfram gagnvart skattgreiðendum í Evrópu.

Framkvæmdastjórn Evrópusambands tilkynnti íslenskum stjórnvöldum fyrir tveimur dögum að fjármögnun á öllum IPA verkefna hérlendis verði hætt. Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra skrifar um ákvörðun ESB á heimasíðu sinni og þar segir meðal annars, að Evrópusambandið hefði brugðist þeim fjölmörgu aðilum gert höfðu samninga um IPA styrki.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra
Ákvörðunin hafi komið ráðuneyti hans í opna skjöldu og að vinnubrögð ESB væru forkastanleg. IPA styrkirnir eru ætlaðir til að styðja við lönd sem eiga í aðildarviðræðum um að samræma löggjöf sína, staðla og stefnur að Evrópusambandinu. ESB útskýrir ákvörðun sína þannig að Ísland einfaldlega uppfylli ekki lengur þessi skilyrði.

Afstaða utanríkisráðherra til aðildarviðræðna við ESB kom skýrt fram í ræðu hans á Alþingi í sumar. Þar sagði hann það næsta útilokað að aðildaviðræður yrðu hafnar á ný á meðan hann væri utanríkisráðherra.

Fyrir árin 2011, 12 og 13 átti Ísland að fá samtals 5,3 milljarða króna. Styrkir vegna tveggja síðustu ára upp á 3,5 milljarða voru slegnir út af borðinu í sumar þegar tilkynnt var að Ísland drægi sig í hlé en styrkirnir vegna ársins 2011 upp á um 1,8 milljarða skyldu halda sér samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðherra, enda vinna við þau verkefni þegar hafin.

Dirk Lange, yfirmaður samninganefndar ESB vegna aðildarviðræðna Íslands,  segir hinsvegar að ekkert slíkt loforð hafi verið gefið enda skorti framkvæmdastjórninni lagaheimild til slíks. Ljóst er að ESB þarf að greiða sekt fyrir að uppfylla ekki þá samninga sem þegar hafa verið gerðir.

Lange segir það ódýrara fyrir skattgreiðendur í sambandinu og eftir því verði að fara. Ákvörðun ESB þýðir ekki að um formleg slit á viðræðum sé að ræða eins og utanríkisráðherra gefur í skyn í fjölmiðlum í dag, það sé alfarið í höndum íslenskra stjórnvalda að ákveða slíkt.

Lange segir að ESB hafi ekki getað leitað í nein fordæmi þegar ákvörðunin um afturköllun IPA styrkjanna var gerð, afstaða íslenskra stjórnvalda sé einsdæmi. Ekkert land hafi gert hlé á viðræðum með þeim hætti sem Ísland hefur gert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×