Innlent

Margar eignir Íbúðalánasjóðs ekki hæfar til leigu

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Íbúðalánasjóður situr á fjölda íbúða sem eru í svo slæmu ásigkomulagi að ekki er hægt að leigja þær út. Yfir 1000 eignir Íbúalánasjóðs standa auðar þrátt fyrir mikla eftirspurn á leigumarkaði.

Eignasafn Íbúðalánasjóðs taldi í lok október um 2.500 eignir um land allt og var tæpur helmingur í útleigu. Margar eignir standa auðar sem hefur vakið gremju leigjenda á markaði enda skortur á leighúsnæði víða mikill. Ekki hægt að leigja allar íbúðir sjóðsins út og það af skiljanlegum ástæðum.

Í fréttatíma Stöðvar 2 í kvöld var litið í heimsókn í eina íbúð í miðborg Reykjavíkur. Ástand íbúðarinnar var ekki upp á marga fiska og telst hún í svo slæmu ásigkomulagi að sjóðurinn treystir sér ekki til að leigja hana út. Sjóðurinn getur varið 1.500 þúsund krónum í endurbætum á húsnæði en margar íbúðir eru í það slæmu ásigkomulagi kostnaður við endurbætur hleypur á milljónum. 

Gert er ráð fyrir að um 1.000 til 1.500 eignir bætist við í eignasafn íbúðalánasjóðs á næstu 16 mánuðum. Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir að það gæti tekið langan tíma að losa um eignasafn sjóðsins.

„Það er ekki hlutverk sjóðsins að fara í meiriháttar endurbætur á eignum. Við höfum sett allt til leigu sem við getum leigt, miðað við þetta viðmið að setja ekki meira en eina og hálfa milljón í eign. Við getum ekki gengið lengra. Það er ekki markmiðið að láta eignir standa og láta þær grotna niður. Við leitum leiða til að koma eignum í sölu,“ segir Sigurður Erlingsson.

Nánar í myndbandinu að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×