Innlent

Fékk skilorðsbundinn dóm fyrir líkamsárás á fyrrverandi sambýliskonu

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Hæstiréttur staðfesti í gær 60 daga skilorðsbundið fangelsi yfir karlmanni. Hann er dæmdur fyrir að hafa tekið utan um háls fyrrverandi sambýliskonu sinnar og lyft henni þannig upp.

Hann barði í hendur konunnar með krepptum hnefa og henti henni í gólfið. Afleiðingar árásarinnar vlru tognun og ofreynsla á hálshrygg og olnboga og mar á fótum.

Árásin átti sér stað þar sem parið fyrrverandi dvaldi saman í sumarbústað í janúar 2012.

Hinn dæmdi neitaði sök og sagði fyrir dómi að hann hefði aðeins tekið í úlnlið konunnar þegar hann reyndi að taka af henni bíllykla til að aftra því að hún æki undir áhrifum áfengis. Hún hefði svo hrasað illa í hálkunni og dottið fyrir utan bústaðinn.

Hæstiréttur taldi að þessi útskýring mannsins gæti ekki skýrt alla þá áverka sem konan hlaut. Aftur á móti þóttu áverkarnir vera í samræmi við framburð brotaþola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×