Lífið

App sem skrifar upp nótur sjálfkrafa kemur bráðum á markað

Ugla Egilsdóttir skrifar
Mynd/Einkasafn
Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands verða afhent í dag í fimmtánda sinn. Peningaverðlaun eru veitt fyrir þrjú efstu sætin. Af þessu tilefni bjallaði Fréttablaðið í þá sem lentu í öðru sæti í fyrra og spurði hvernig verkefninu hefði undið áfram í framhaldi af verðlaununum.

Hilmar Þór Birgisson fékk önnur verðlaun í fyrra fyrir hugmynd sína um tóngreini til tónbilaæfinga á smátækjum. Hilmar gerði meistaraverkefni sitt í rafmagns- og tölvunarverkfræði um hugmyndina og er nýútskrifaður.

Auk hagnýtingarverðlauna Háskóla Íslands fékk verkefnið frumherjastyrk Rannís. Upp úr því stofnaði Hilmar fyrirtækið Tóngreini ehf. Núna vinnur Hilmar fulla vinnu við að koma tóngreininum á koppinn.

„Þetta kemur bara sem lítil hugsun í byrjun, byggð á merkjafræðigreiningu. Hugmyndin er sú að fólk geti til dæmis sungið inn laglínu sem appið skrifar upp sjálfkrafa sem nótur.“ Hilmar segir hópinn ætla sér einföld skref til að byrja með. „Erum að greina eina laglínu eins og er, en ekki margar raddir í einu.“

Hilmar viðurkennir að á markaðnum sé ýmislegt í boði sem svipar að einhverju leyti til tóngreinisins. „Margt af því er klunnalegt, en við sáum að minnsta kosti eitt sem gæti valdið okkur mikilli samkeppni. Hinsvegar býður það ekki upp á allt sem við ætlum að hafa. Til dæmis er það þannig í því appi að ef þú spilar inn laglínu, þá geturðu ekki lagað til nóturnar eftir á í appinu. Í okkar appi verður hægt að krukka meira í nótunum eftir á.“

Hilmar Þór er eigandi og framkvæmdastjóri Tóngreinis ehf. Með honum vinna þrír verktakar í litlu hlutastarfi og hjálpa Hilmari við forritun og grafíska vinnslu, ásamt aðstoð við tónfræðilegu hliðarnar. Hópurinn stefnir á að gefa út öpp á næstu mánuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.