Innlent

Bændasamtökin eru ekki rekin fyrir almannafé

Samúel Karl Ólason skrifar
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
„Mér finnst tillögurnar athyglisverðar og vonast til þess að þær geti með einhverju móti leiðrétt þann misskilning sem virðist vera ráðandi, að Bændasamtökin séu fjármögnuð af almannafé. Þau eru það ekki,“ segir Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtakana. „Heldur fara þeir fjármunir sem áður voru eyrnamerktir Bændasamtökunum til verkefna í gegnum svokallaðan búnaðarlagasamning."

Tillaga hagræðingarhópsins varðandi samtökin eru svo hljóðandi: „Greiðslum til Bændasamtaka Íslands verði hætt. Búnaðarlagasamningi verði breytt þannig að áfram verði stuðningur við ákveðin verkefni og má þar t.d. nefna kornrækt, verndun búfjárstofna o.fl.“

„Þessar greiðslur sem hafa farið til Bændasamtaka Íslands eins og kallað er í tillögunni eru peningar sem hafa runnið í framlög vegna búnaðarlagasamnings. Samtökin hafa haft umsýslu með útgreiðslu þeirra, en þetta eru ekki peningar sem notaði eru til að reka samtökin. Heldur renna þær til skilgreindra verkefna.“ Framlög ríkisins til Bændasamtakanna samkvæmt búnaðarlagasamningi renna til ráðgjafaþjónustu, búfjárræktar, þróunarverkefna og sem framlag í Framleiðnisjóð.

Sindri segir að ræða þurfti hvort halda eigi þessum skilgreindu verkefnum og telur eðlilegt að það sé skoðað. „Einnig er mikilvægt að þessar greiðslur heiti jafnvel framlög samkvæmt búnaðarlagasamningi. Þær þurfa ekki endilega að renna í gegnum Bændasamtökin,“ segir Sindri. Hann segir ennfremur að margar tillögur hagræðingarhópsins séu áhugaverðar og nefnir sem dæmi tillögu um sameiningu skógræktar ríkisins og landgræðslu ríkisins. „Það er mjög áhugavert að skoða hvort það geti verið hagkvæmt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×