Innlent

Þétt dagskrá hjá Danadrottningu

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Margrét II Danadrottning.
Margrét II Danadrottning. Mynd/AFP
Margrét Þórhildur Danadrotting kemur til landsins í dag. Heimsókin hefst á kvöldverðarboði á Bessastöðum sem forseti Íslands heldur henni til heiðurs. Meðal gesta verða ráðherrar í ríkisstjórn Ísland ásamt íslenskum og dönskum fræðimönnum sem unnið hafa á Stofnun Árna Magnússonar í Reykjavík og í Danmörku.

Þétt dagskrá verður hjá Danadrottningu á morgun og hefst hún í Þjóðmenningarhúsinu kl. 10:40 þar sem drottningunni verður afhent fyrsta eintakið af tveggja binda verki Jóns Þ. Þórs og Guðjóns Friðrikssonar um sögu Kaupmannahafnar, höfuðstaðar Íslands í 500 ár. Að því loknu skoðar hún handrit í húsinu með leiðsögn Guðrúnar Norðdal, forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar.

Klukkan 13:30 hefst athöfn í hátíðasal Háskóla Íslands þar sem háskólarektor Kristín Ingólfsdóttir tekur á móti drottningu. Þar flytur Annette Lassen fyrirlestur um Árna Magnússon og einnig flytja ræður Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Guðrún Nordal. Klukkan 14:40 heimsækir Margrét drottning Hörpu og skoðar hana í fylgd Halldórs Guðmundssonar, forstjóra Hörpu.

Klukkan 16:00 er drottningin viðstödd opnun sýningar í Gerðarsafni á Teiknibókinni íslensku; Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra opnar sýninguna en Guðbjörg Kristjánsdóttir forstöðumaður safnsins fylgir drottningu um sýninguna og segir frá bókinni.

Klukkan 19:30 hefst í Þjóðleikhúsinu hátíðardagskrá í tilefni af 350 ára afmæli Árna Magnússonar og geta fjölmiðlamenn verið viðstaddir þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×