Innlent

Grindavíkurbær lækkar útsvar niður fyrir 14%

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Grindavík er best setta sveitarfélag landsins samkvæmt nýrri úttekt Arion-banka.
Grindavík er best setta sveitarfélag landsins samkvæmt nýrri úttekt Arion-banka. Mynd/Oddgeir
Útsvar lækkar í Grindavík annað árið í röð og verður 13,99% á næsta ári. Útsvar í bæjarfélaginu lækkar um 0,29% á milli ára. Í gær fór fram íbúafundur um fjárhagáætlun bæjarins. Róbert Ragnarsson bæjarstjóri fór yfir fjárhagsáætlunina og rakti m.a. þær aðgerðir sem gripið hefur verið til undanfarin ár. Eftir erfiðan rekstur hefur verið afgangur 2012 og 2013 til að jafna út tapið 2011 og er gert ráð fyrir rekstrarafgangi 2014.

Á vef Grindavíkurbæjar segir að Grindavíkurbær sé best setta sveitarfélag landsins samkvæmt nýrri úttekt greiningadeildar Arion-banka.

Setja á mikla innspýtingu í efnahagslíf bæjarins næstu ár samhliða því að ná rekstrarjafnvægi. Alls verður framkvæmt fyrir um 1,8 milljarða króna árin 2014-2017, þar af um 750 milljónir króna á næsta ári.

Grindavíkurbær tekur ekki lán fyrir framkvæmdum sínum. Bæjarfélagið er með traustan sjóð eftir að hafa selt sinn hlut í Hitaveitu Suðurnesja fyrir nokkrum árum. Sjóðurinn stendur í dag í 1,4 milljörðum króna en stefnt er að því að sjóurinn verði aldrei lægri en 1.000 milljónir króna. Nota á einnig veltufé úr rekstri bæjarins til framkvæmda.

Á næsta ári lýkur byggingu nýs sameiginlegs bókasafns og breytingar á húsnæði skólans fyrir flutning tónlistarskóla. Þá eru framkvæmdir að hefjast við fyrsta áfanga í uppbyggingu íþróttamiðstöðvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×