Innlent

Eyddi áramótunum með hljómsveitinni sem var myrt í Brooklyn

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Ósk Gunnarsdóttir hitti meðlimi sveitarinnar Yellow Dogs á síðasta ári.
Ósk Gunnarsdóttir hitti meðlimi sveitarinnar Yellow Dogs á síðasta ári.
„Það var rosalegt sjokk þegar ég las þetta í morgun. Við eyddum síðustu áramótum með þessum strákum - einmitt í þessari íbúð,“ segir Ósk Gunnarsdóttir, útvarpskona á FM957. Hún kynntist lauslega meðlimum írönsku hljómsveitarinnar Yellow Dogs en tveir meðlimir sveitarinnar voru skotnir til bana áður en tilræðismaðurinn fyrirfór sér í New York í gær.

Hljómsveitin var búsett í þriggja hæða íbúð í Brooklyn og fór Ósk ásamt kærasta sínum og nokkrum vinum í hóf sem haldið var um síðustu áramót. Það var í þessari sömu íbúð sem voðaverkið var framið.

„Við þekkjum umboðsmann hljómsveitarinnar og enduðum í partýi hjá þeim um áramótin. Þetta var fámennt partý og líklega ekki nema um 30 manns. Við vorum eiginlega á trúnó með þessum strákum á þakinu á íbúðinni þannig að það var mjög súrrealískt að lesa þetta svo í morgun. Þetta er mjög sorglegt,“ segir Ósk.

Tilræðismaðurinn var ekki í hljómsveitinni en tengdist meðlimum sveitarinnar vinaböndum. Hann mun hafa notað hálfsjálfvirkan riffil og skaut hann þrjá til bana áður en hann tók sitt eigið líf á þaki íbúðarinnar.

Allir meðlimir sveitarinnar voru frá Íran og komu fram í verðlaunaðri heimildarmynd frá árinu 2009 sem fjallaði um neðanjarðar rokktónlistarsenu í Tehran. Eftir að myndin, No One Knows About Persian Cats, kom út árið 2009 flúðu meðlimirnir til Bandaríkjanna og óskuðu eftir hæli sem þeir fengu árið 2010, en samkvæmt myndinni er ólöglegt fyrir íranska borgara að spila saman í rokkhljómsveit þar í landi.


Tengdar fréttir

Blóðbað í Brooklyn

Ósáttur hljómsveitarmeðlimur myrti fyrrum félaga sína og skaut sjálfan sig til bana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×