Innlent

Íbúar við Tryggvagötu óttast skipulagsslys

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Ævar Árnason og Elín Petersdóttir, íbúar Tryggvagötu 4 til 6, reyna að keyra í gegn um 1,9 metrana.
Ævar Árnason og Elín Petersdóttir, íbúar Tryggvagötu 4 til 6, reyna að keyra í gegn um 1,9 metrana.
Íbúar Tryggvagötu 4 til 6 hafa mótmælt breytingum á deiliskipulagi Norðurstígsreits sem samþykkt var á fundi umhverfis- og skipulagssviðs þann 30. október.

Í bréfi sem borgarráðsfulltrúm var sent fyrir fund sem haldinn var þann 7. nóvember kom m.a. fram að það veki furðu íbúa að slíkt skipulag hafi verið samþykkt þar sem það loki næstum aðgengi að húseigninni að sunnanverðu og íbúar skilji ekki forsendur þess að afnema umrædda kvöð, þrátt fyrir ítrekuð mótmæli á kynningarfundum og athugasemdum lögmanna sem lagðar voru fram í umhverfis- og skipulagsráði.

„Það er steinhús þarna við lóðamörkin sem er friðað,“ segir Valgerður Katrín Jónsdóttir, íbúi í húsinu við Tryggvagötu 4 til 6. „Þetta er reyndar miðjan í húsinu sem er friðuð en svo eru skúrar sitt hvorum megin við sem eru það ekki. Húsið var selt árið 2007 og nýr eigandi gerði athugasemdir við þessa kvöð um umferð þá.“ Valgerður segir kvöðina á umferð hafa verið fellda niður og að aðkoman að lóð hússins við Tryggvagötu að sunnanverðu, sem nær inn á lóð steinhússins að hluta, minnki í kjölfarið úr þremur metrum í 1,9 metra.

„Þetta er skipulagsslys í uppsiglingu,“ segir Valgerður en í tilkynningu frá íbúum hússins segir að með breytingunum sé aðgengið gert ónothæft þar sem meðalbreidd bifreiða sé 2,2 metrar. Verið sé að skerða aðkomu að lóðinni en norðanmegin sé einnig erfitt aðgengi sökum umferðar. „Sunnanmegin er gengið inn í geymslur og sameign. Þá þarf að gera við kjallarann og þá þurfa að koma vinnuvélar. Það þarf að vera aðkoma til að við getum búið í húsinu.“

Hlíðarhús, steinhúsið umrædda.
Vita ekki hvað liggur að baki

Valgerður segir ekkert vera í steinhúsinu nema geymslur og að þarna sé verið að taka hagsmuni eigenda steinhússins fram yfir hagsmuni íbúanna. „Þetta er hálfgerður skúr. Það er fasteignafélagið Ný fasteign sem á skúrinn en við vitum ekki hvað liggur að baki. Hvort það sé verið að hugsa um einhverjar framkvæmdir eða þvíumlíkt.“

Afgreiðslu málsins var frestað á síðasta fundi borgarráðs en næsti fundur verður haldinn á fimmtudaginn og á Valgerður von á því að málið verði afgreitt þá. Með mótmælum íbúa fylgja álit lögfræðinga þar sem bent er á að með breytingu á núverandi deiliskipulagi  sé verið að brjóta lög  og geti endanleg afgreiðsla haft í för með sér verulegan kostnað skattgreiðenda ef borgarráð samþykkir breytingarnar frá umhverfis- og skipulagsnefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×