Innlent

"Vanmátturinn algjör“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Filippeysk kona búsett hér á landi hefur engar fréttir fengið af fjölskyldu sinni eftir að fellibylurinn Haiyan gekk yfir eyjarnar á föstudag. Tala látinna á svæðinu fer sífellt hækkandi.

Fatima Mandia Labitigan fluttist hingað til lands fyrir tveimur árum og starfar sem hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum. Hún ólst upp í smábænum Basey á Filippseyjum, en þar er nú allt í lamasessi og ekkert símasamband. Foreldrar Fatimu og þrjú yngi systkini hennar búa í bænum.

Fatima og Gunnar Örn Eggertsson, eiginmaður hennar, hafa heimsótt Filippseyjar þrisvar sinnum á síðustu tveimur árum. Gunnar skelfilegt að sjá myndir af bænum.

„Það er ekki hægt að lýsa því hvernig okkur líður að sjá þetta. Húsin þarna eru langflest úr bambus og maður getur ekki ímyndað sér að þau geti staðið svona af sér. Vanmátturinn er bara algjör - við getum ekkert gert nema vonast eftir símtali,“ segir Gunnar.

Hjónin hafa opnað söfnunarreikning til að hjálpa bágstöddum í heimabæ Fatimu. Þar er  er mikil fátækt og eftir því sem þau komast næst hefur enn engin hjálp eða neyðarbyrgðir borist þangað.  Fyrir þá sem vilja leggja málefninu lið er reikningsnúmerið 0515-26-837441 og kennitalan 161090-5069.

Rauði Krossinn á Íslandi sér um leitarþjónustu fyrir þá sem hafa misst samband við ættingja og vini á hamfararsvæðinu í gegnum leitarþjónustu Rauða Krossins á Filippseyjum. Leit að ættingjum Fatimu stendur nú yfir.

Rauði Krossin hóf neyðarsöfnun í gær og er fólk hvatt til að hringja og leggja hjálparstarfinu lið. Þá bætist upphæð sem nemur síðustu 4 tölunum við næsta símreikning. Símanúmerin eru 904 1500, 904 2500 og 904 5500.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×