Innlent

Dómur Héraðsdóms gæti kostað Lánasjóð sveitarfélaga milljarða

Jón Júlíus Karlson skrifar
Nýr dómur Héraðsdóms Reykjavíkur gæti kostað Lánasjóð íslenskra sveitarfélaga milljarða. Um 100 milljónir hafa verið felldar niður af láni sveitarfélagsins Skagafjarðar frá lánasjóðnum.

Forsaga málsins er sú að árið 2007 tók sveitarfélagið 115 milljón króna lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Lánið hækkaði talsvert í kjölfar efnahagshrunsins og hafði nærri tvöfaldast á nokkum árum. Ágreiningurinn snérist um það hvort að sveitarfélagið hefði tekið lán sitt í erlendum gjaldmiðli eða íslenskum krónum bundið í erlendum gjaldlmiðli. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að um ólögmætt gengistyggt lán hafi verið um að ræða og því hafi þurft að endurreikna lánið.

„Þarna munar rúmum 100 milljónunum króna. Eftirstöðvar lánsamningsins samkvæmt lánasjóðnum voru taldar standa í rúmum 200 milljónum króna en niðurstaða dómsins er sú að eftirstöðvarnar eru rúmar 100 milljónir,“segir Einar Hugi Bjarnason hæstaréttarlögmaður.

Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri lánasjóðsins, vildi ekki tjá sig um málið. Ekki er búið að taka ákvörðun um það hvort að málinu verði vísað til Hæstaréttar. Tvö svipuð mál eru nú fyrir dómsstólum og segir Einar Hugi að fleiri sveitarfélög gætu leitað réttar síns í kjölfar dómsins.

„Ég leyfi mér að efast um það að þessi samningur sé einsdæmi og hef frekar trú á því að þessi dómur kunni að hafa víðtækt fordæmisgildi. Ég tel líklegt að sveitarfélög á Íslandi skoði efni sinna samninga sem gerðir hafa verið við lánasjóðinn. Ef þessir samningar eru efnilega sambærilegir þá er um að tefla milljarðar króna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×