Innlent

Ríkisstjórnin sökuð um afturhvarf til pólitískra afskipta af ríkisfyrirtækjum

Heimir Már Pétursson skrifar
Stjórnarandstaðan sakar fjármálaráðherra um pólitísk afskipti af stjórnum ríkisfyrirtækja.
Stjórnarandstaðan sakar fjármálaráðherra um pólitísk afskipti af stjórnum ríkisfyrirtækja.
Ríkisstjórnin var sökuð um afturhvarf til pólitískra afskipta af stjórnum ríkisfyrirtækja á Alþingi í dag. Iðnaðarráðherra þrýsti á Landsvirkjun um orkusölu til stóriðju og fjármálaráðherra hyggðist skipta út stjórnum ríkisfyrirtækja áður en skipunartími stjórnarmanna væri runninn út.

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna upplýsti á Alþingi í morgun að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefði skrifað formönnum stjórnmálaflokkanna og óskað eftir tilnefningum fulltrúa í stjórn nokkurra ríkisfyrirtækja eins og Landsvirkjunar. Óvenjulegt væri að skipta um stjórnarmenn áður en skipunartími rennur út. Bjarni sagði hins vegar alvanalegt að skipta um stjórnarmenn samhliða ríkisstjórnarskiptum.

„Ég man ekki betur en að háttvirtur þingmaður sem ber upp fyrirspurnina hafi t.d. skipt um stjórn í Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) áður en skipunartími þeirrar stjórnar rann út á sínum tíma árið 2009,“ sagði fjármálaráðherra.

„Ég verð nú aðeins að leiðrétta hæstvirtan ráðherra því það er auðvitað mismunandi milli félaga og stofnana hvernig þessu er háttað. Í tilviki Lánasjóðs íslenskra námsmanna stendur beinlínis í lögum að skipunartími stjórnar fylgi skipunartíma ráðherra,“ svaraði formaður Vinstri grænna og fyrrverandi menntamálaráðherra.

Þetta eigi ekki við um stjórnir fyrirækja eins og Landsvirkjunar. Eðlilegast væri að skipunartími fengi að renna sitt skeið.

„Því það er ekki laust við að maður óttist að hér sé enn eitt afturhvarfið á ferð, afturhvarfið sem er eiginlega orðið nýtt vörumerki þessarar ríkisstjórnar. Afturhvarf til aukinna flokkspólitískra taka á stjórnum félaga og fyrirtækja,“ sagði Katrín.

Og Helgi Hjörvar þingflokksformaður Samfylkingarinnar gagnrýndi framgöngu iðnaðar- og viðskiptaráðherra á haustfundi Landsvirkjunar í gær, sem væri afturhvarf til fyrri tíma.

„Sendir þau skilaboð til gagnaðila að stjórnendur Landsvirkjunar séu í þröngri stöðu. Erfiðri samningsstöðu með mikinn pólitískan þrýsting á bakinu um að lækka verðið nógu mikið til að verkefni fáist,“ sagði Helgi.

Fjármálaráðherra þakkaði Helga brýninguna. Hann og Helgi deildu þeirri skoðun að Landsvirkjun væri rekin með arðsemis- og langtímasjónarmið að leiðarljósi. Eigendastefna Landsvirkjunar væri í fullu gildi. Þessum orðum ráðherra fagnaði Helgi.

„Ég ætla að árétta það héðan úr ræðustólnum gagnvart viðsemjendum okkar að krafan í samningum Landsvirkjunar um sölu á orku er krafa um arðsemi. Og ég ætla að kalla það hreina örvæntingu hjá hæstvirtum iðnaðarráðherra að hrauna yfir stjórnendur Landsvirkjunar á opinberum fundi,“ sagði Helgi Hjörvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×