Innlent

Gunnar Birgisson sló Ómar í bringuna

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Ómar segir að Gunnar hafi verið stórhuga og oft reynt að finna leiðir að sínum markmiðum framhjá fólki. Stundum hafi komið til átaka.
Ómar segir að Gunnar hafi verið stórhuga og oft reynt að finna leiðir að sínum markmiðum framhjá fólki. Stundum hafi komið til átaka. mynd/365
„Það gat oft verið mjög stormasamt,“ segir Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi og oddviti framsóknarmanna í Kópavogi um samstarf sitt við Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóra. Í viðtali við Kópavogsfréttir gerir Ómar meðal annars upp feril sinn sem stjórnmálamaður og samstarfið í bæjarstjórninni.

Ómar segir að Gunnar hafi verið stórhuga og oft reynt að finna leiðir að sínum markmiðum framhjá fólki. Stundum hafi komið til átaka. Ómar rifjar upp eitt atvik þegar rætt hafi verið um að bjóða út gerð ársskýrslu bæjarins. Ómar vildi að verkefnið yrði boðið úr en Gunnar varð svo reiður að hann strunsaði út úr fundaherberginu með þeim orðum að Ómar væri á móti „sér og sinni fjölskyldu“.

Ómar elti Gunnar fram og svaraði honum fullum hálsi en þá sló Gunnar hann fast í bringuna. Ómar segir að sér hafi krossbrugðið við þetta og orðið mjög reiður. Gunnar skellti hurðinni að skrifstofu sinni beint á nefið á Ómari þegar Ómar ætlaði að elta hann áfram. Það sauð á mér þarna og munaði litlu að ég rifi upp hurðina inn á skrifstofu hans og færi bara almennilega í kallinn. Mig langaði í eitt sinn að berja Gunnar Birgisson,“ segir Ómar.

Ómar segir að sér hafi sem betur fer runnið reiðin og tekur fram að það vinni aldrei neinn í svona aðstæðum. Málinu hafi þó lokið á því að verkefnið var boðið út. „Svona gat þetta verið,“ segir Ómar.

Ætlar að athuga hvort hann eigi einhverja vini ennþá

Ómar gekk í framsóknarflokkinn árið 1986 þegar hann var nýútskrifaður úr Bændaskólanum. Hann segir ekkert annað hafa komið til greina. Þremur árum síðar settist hann í stjórn ungra framsóknarmanna í Kópavogi og tók sjötta sæti á lista flokksins árið 1990. Árið 1998 varð hann varabæjarfulltrúi og hefur verið viðriðinn sveitarstjórnarmál síðan.

Eins og fram hefur komið á Vísi ætlar Ómar nú að taka sér frí frá stjórnmálum. Þar sagði að Ómar stefni á að koma tvíefldur til baka í kosningarnar árið 2018.

Hann segir að það sé fyrst og fremst út af fjölskyldunni sem hann tekur fríið. Hann eigi þrjú börn á skólaaldri sem hann langi að fylgjast betur með. Einnig ætlar hann að athuga hvort hann eigi einhverja vini ennþá.

Segir Ómar að þegar hann komi til baka ætli hann að vera eins lengi í stjórnmálum og hann mögulega geti. „Ég ætla ekkert að þekkja minn vitjunartíma,“ segir Ómar og hlær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×