Innlent

Leysir engan vanda að loka Þjóðleikhúsinu

Höskuldur Kári Schram skrifar
Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, segir að það leysi ekki vanda heilbrigðiskerfisins að loka Þjóðleikhúsinu eða leggja niður Sinfóníuhljómsveit Íslands. Rétt forgangsröðun ríkisfjármála feli ekki í sér að loka öllum helstu menningarstofnunum landins.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, kallaði nýlega eftir breyttri forgangsröðun í ríkisfjármálum til að tryggja grunnþjónustu. Gagnrýndi hann sérstakleg að peningum sé varið í rekstur Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands á sama tíma og verið er að skera niður í heilbrigðismálum. Fleiri hafa tekið undir þetta þar á meðal þingmenn Sjálfstæðisflokks.

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, segir að það leysi ekki vanda heilbrigðiskerfisins að loka Þjóðleikhúsinu eða leggja niður Sinfóníuhljómsveit Íslands. Illugi er gestur í þættinum Pólitíkin á vísir.is

„Ég skil stöðu hans sem bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Hann er að auðvitað að reyna að verja að það sé ákveðin þjónusta til staðar í Vestmannaeyjum. Okkur vantar meira fé inn í heilbrigðiskerfið en lausnin á því er ekki að loka Þjóðleikhúsinu. Okkur vantar líka meira fjármagn inn í menntakerfið og ég er alveg klár á því að öryrkjar og aldraðir telja að það vanti meira fjármagn inn í þeirra málaflokk. Að mínu mati er umræðan á villigötum. Ætla menn að loka Þjóðleikhúsinu af því að það vantar fjármagn hér og þar? Hvað ætla menn að gera þegar búið er að loka Þjóðleikhúsinu og áfram vantar? Siðað samfélag þarf á svona starfsemi að halda og þetta bætir samfélagið,“ segir Illugi.

Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×