Innlent

Mörg íslensk börn skoða klám

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Stór hluti barna í sjötta til tíunda bekk fer reglulega inn á klámsíður á netinu.  Þetta kemur fram í nýrri könnun SAFT um aðgengi barna og unglinga að klámi hér á landi.

Niðurstöðurnar könnunarinnar sýna að tæp 24% barna í 6.-10. bekk höfðu einhvern tíma á síðastliðnum 12 mánuðum farið viljandi inn á vefsíður með klámi. Þar af fóru 15% tvisvar í mánuði eða oftar.

Strákar eru mun líklegri en stelpur til að fara viljandi inn á slíkar vefsíður, en alls höfðu 38% stráka einhvern tíma á sl. 12 mánuðum farið viljandi inn vefsíðu með klámi, og 27% þeirra tvisvar í mánuði eða oftar.  Um 11% stelpna höfðu hins vegar einhvern tíma á sl. 12 mánuðum farið viljandi inn á klámsíður.

Anna Kristín Newton, sálfræðingur, segir þessar tölur ekki koma á óvart. Hún segir drengi og stúlkur leita mismunandi leiða til að fá upplýsingar um kynlíf. Stelpur horfa frekar á rómantískar gamanmyndir og strákar leita upplýsinga á netinu, þar sem þeir enda oft á klámsíðum.

Anna hvetur foreldra til að fræða börn sín um kynhegðun og heilbrigt kynlíf. Það sem þau sjá á netinu er oft mjög fjærri raunveruleikanum. Það sem börn sjá í klámi getur haft varanleg áhrif á þau og rannsóknir sýna fram á að ung börn geti beinlínis orðið háð klámi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×