Innlent

Rithöfundurinn Doris Lessing látin

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Doris Lessing hlaut Nóbelsverðlaunin árið 2007.
Doris Lessing hlaut Nóbelsverðlaunin árið 2007.
Doris Lessing, rithöfundur og Nóbelsverðlaunahafi, er látin 94 ára að aldri. Að sögn umboðsmanns hennar lést hún í svefni á heimili sínu í London í morgun.

Doris Lessing hlaut Nóbelsverðlaunin árið 2007. Við það tilefni sagði hún: „Ég er 88 ára gömul og þau geta ekki veitt verðlaunin einhverjum sem er dáinn. Þau hafa því líklega hugsað sem svo að það væri best að veita mér þau áður en ég hrekk upp af“.

Lessing fæddist í Persíu sem er Íran í dag. Foreldrar hennar voru breskir og þegar Doris var um sex ára gömul fluttist hún með fjölskyldu sinni til Suður-Ródesíu sem er Simbabve í dag. Eftir tvö misheppnuð hjónabönd flutti Doris til Bretlands. Þegar hún kom þangað þrítug að aldri hafði hún með sér handritið af bókinni Grasið syngur. Bókin kom út árið 1950 og hlaut góðar viðtökur, bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum.

Meðal annarra bóka Doris sem þýddar hafa verið á íslensku eru Dagbók góðrar grannkonu, Minningar einnar sem eftir lifði og Í góðu hjónabandi.

Upplýsingar teknar af Gawker, Time og Wikipedia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×