Innlent

Guðríður stefnir á formannssætið

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Guðríður Arnardóttir.
Guðríður Arnardóttir.
Guðríður Arnardóttir hefur lýst yfir framboði til formanns Félags framhaldsskólakennara. Guðríður hefur verið bæjarfulltrúi í Kópavogi í rúmlega sjö ár, er núverandi varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og fulltrúi Íslands í sveitarstjórnarvettvangi Evrópuráðsins.

Hún hefur áður lýst því yfir að hún muni ekki gefa kost á sér til áframhaldandi þátttöku á vettvangi sveitarstjórnarmála og stígur til hliðar næsta vor. Guðríður er menntaður framhaldsskólakennari með diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu. Hún hefur kennt raungreinar við Fjölbrautaskólann í Garðabæ síðastliðin 10 ár.

„Nú eru blikur á lofti um skipan menntamála sem aldrei fyrr. Það er hart sótt að framhaldsskólum landsins með einhliða hugmyndum um styttingu náms til stúdentsprófs. Hugmyndum um sparnað í rekstri framhaldsskólans á kostnað námsins þarf að svara á faglegum grundvelli og ræða framtíð framhaldsmenntunar á Íslandi af yfirvegun og fagmennsku,“ segir Guðríður í tilkynningu til fjölmiðla.

„Framhaldsskólakennarar þurfa sterka rödd til varnar faglegu starfi innan skólanna og til sóknar í kjarabaráttu sinni, en framhaldsskólakennarar hafa dregist aftur úr sambærilegum stéttum í launum á síðustu misserum. Ég hef lengi haft áhuga á verkalýðsbaráttu og kjaramálum míns stéttarfélags og býð fram krafta mína fyrir þann málstað.  Ég bið um stuðning minna félaga í starf formanns sem kosið verður um í janúar á næsta ári.

Núverandi formaður Félags framhaldsskólakennara, Aðalheiður Steingrímsdóttir, mun ekki gefa kost á sér til endurkjörs og ljóst að kosið verður um nýjan formann, sem mun taka við embætti næsta vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×