Innlent

Fólk öskraði, grét og hló taugaveiklunarhlátri

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Óttar segir fólk hafa verið hrætt milli fyrstu lendingartilraunarinnar og tilkynningar flugstjórans.
Óttar segir fólk hafa verið hrætt milli fyrstu lendingartilraunarinnar og tilkynningar flugstjórans.
„Í lendingunni var bara bilað veður, blindhríð og læti og í miðju kafi var allt í einu hætt við að lenda, flugvélin rifin upp og fólk varð verulega hvekkt,“ segir rithöfundurinn Óttar M. Norðfjörð í samtali við fréttastofu. Hann var farþegi í flugi Wow Air sem neyddist til að lenda á Akureyri vegna slæmra veðurskilyrða í Keflavík í gær. Vélin var að koma frá London.

Flugstjórinn gerði tvær lendingartilraunir í Keflavík áður en hætt var við að reyna frekari lendingar og vélinni flogið til Akureyrar þar til veðrinu slotaði.

„Maður hefur oft heyrt af sambærilegri reynslu frá öðrum og lesið um svona erfið flug en þarna lendir maður í þessu sjálfur og þakkar fyrir að við stjórnvölin sé hæft fagfólk sem kann að taka réttar ákvarðanir,“ sagði Óttar.

Hann segir fólk hafa verið hrætt, sérstaklega eftir fyrri lendingartilraunina en tíminn sem leið milli hennar og þar til flugstjórinn gat gefið sér tíma til að útskýra hvað væri í gangi, tók á.

„Það er náttúrulega í mannlegu eðli að bregðast á mismunandi hátt við svona aðstæðum, sumir öskruðu, aðrir hlógu taugaveiklunarhlátri og einhverjir fóru að gráta. Ég veit ekkert hvort við vorum í einhverri raunverulegri hættu, en þegar maður hefur svona litla stjórn á aðstæðum þá fer maður ósjálfrátt að ímynda sér það versta,“ sagði Óttar.

Flugstjórinn tilkynnti eftir seinni misheppnuðu lendingartilraunina að flogið yrði til Akureyrar þar til veðrinu slotaði. Eftir eins og hálfs tíma bið á Akureyri var síðan að lokum lent heilu og höldnu í Keflavík.

„Það var samt sem áður mikið rok og veðrið í það versta en flugmennirnir náðu samt blessunarlega að lenda og eiga hrós skilið fyrir sína frammistöðu. Þegar við gengum svo út úr vélinni fundum við hvernig vélin iðaði öll út af vindkviðum, snjókomu og ofanhríð,“ sagði Óttar og bætti við: „Þetta er kannski bara fylgifiskur þess að búa á Íslandi en ekki Kanarí þar sem alltaf er sól.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×