Íslenski boltinn

Bjarni Hólm og Viktor Bjarki verða áfram með Fram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viktor Bjarki Arnarsson.
Viktor Bjarki Arnarsson. Mynd/Daníel
Varnarmaðurinn Bjarni Hólm Aðalsteinsson og miðjumaðurinn Viktor Bjarki Arnarsson verða áfram með Fram í Pepsi-deild karla í fótbolta næsta sumar en Framara sendu frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem kemur fram að þessir reynslumiklu menn hafi framlengt samninga sína.

Bjarni Guðjónsson tók við þjálfun Fram á dögunum og það hefur verið mikið um breytingar á leikmannahópnum. Lykilmenn hafa yfirgefið Safamýrina og Bjarni hefur safnað að sér ungum og lítt þekktum leikmönnum.

Viktor Bjarki er þrítugur og Bjarni Hólm er 29 ára. „Fram fagnar því að hafa náð samningum við þessa leikmenn sem eru mikilvægir í framtíðaráætlunum félagsins. Fram hefur á undanförnum vikum samið við sjö unga leikmenn en mikilvægt er að tryggja að reynsla sé til staðar í hópnum og eru nýir samningar við Bjarna og Viktor Bjarka liður í því," segir í fréttatilkynningu Framara.

Báðir voru þeir Viktor Bjarki og Bjarni Hólm á sínu fyrsta tímabili með Fram í sumar en Bjarni Hólm meiddist á móti ÍBV í Eyjum 23. júní og lék ekkert eftir það. Viktor Bjarki var með 2 mörk og 1 stoðsendingu í 20 leikjum.

Bjarni Hólm gerði tveggja ára samning til ársins 2015 en samningur Viktors Bjarka er aftur á móti til þriggja ára eða út árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×