Innlent

Dæmdur fyrir að káfa á brjóstum jafnöldru sinnar

Boði Logason skrifar
Pilturinn játaði brot sín fyrir dómara
Pilturinn játaði brot sín fyrir dómara
Nítján ára piltur var dæmdur í þrjátíu daga skilorðbundið fangelsi í eitt ár í Héraðsdómi Vestfjarða í gær fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum.

Pilturinn játaði að hafa, í eitt skipti á sumarmánuðum árið 2011 þegar hann var 17 ára gamall, káfað með báðum höndum á brjóstum stúlku sem var á sautjánda aldursári utan klæða.

Og aftur í lok desember „áreitt hana kynferðislega og sýnt henni ósiðlegt athæfi með því að káfa með báðum höndum á brjóstum hennar utan klæða og stuttu síðar káfað með annarri hendinni á öðru brjósti hennar utan klæða,“ eins og segir í ákæru.

Í dómnum kemur fram að pilturinn hafi ekki áður sætt refsingu, og beri að líta til þess við ákvörðun refsingar en einnig til ungs aldurs hans og skýlausrar játningar.

Lágmarksrefsing fyrir brot af þessu tagi er 30 daga fangelsi, en dómaranum þótti ekki ástæða til nýta lagaheimild til að færa refsinguna úr því lágmarki, að því er fram kemur í dómnum.

Stúlkan fór fram á 400 þúsund krónur í miskabætur, en dómari sagði að „þótt ekki liggi fyrir nein gögn um þær afleiðingar sem brotin hafa haft fyrir brotaþola [stúlkuna] er til þess að líta að kynferðisbrot eru í eðli sínu til þess fallin að valda þeim sem fyrir þeim verða miska. Með hliðsjón af eðli brotanna þykja bætur hæfilega ákveðnar 75 þúsund krónur,“ segir í niðurstöðu dómara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×