Innlent

Fjórir læknar hafa sagt upp störfum í Vestmannaeyjum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Mikið óvissuástand ríkir um framtíð Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja.
Mikið óvissuástand ríkir um framtíð Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja.
Fjórir læknar hafa sagt upp hjá Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja síðasta hálfa árið.

Hjörtur Kristjánsson er fjórði læknirinn á árinu sem segir upp starfi sínu hjá stofnuninni.

Hjörtur er eini lyflæknir stofnunarinnar og eini sjúkrahúslæknirinn eftir fyrsta nóvember þegar Smári Steingrímsson skurðlæknir hættir. Auk þess hefur ekki verið fastráðinn svæfingalæknir um nokkurt skeið við stofnunina.

Gunnar K. Gunnarsson framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja segir menn þykja óvissuástandið óþægilegt.  

„Það er alveg ljóst að það þarf að snúa við viðvarandi hallarekstri sem veldur óvissu um framtíð stofnunarinnar,“ segir Gunnar og bætir við að framtíðarskipulag sé í skoðun.

Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum segir málið leggjast illa í bæjarstjórn og alla bæjarbúa.  

„Það er algjörlega ótækt að sjá stöðuna sem þessi mikilvæga stofnun er komin í. Ef að fram fer sem horfir verða tveir læknar eftir. Vestmannaeyjar er næststærsti byggðarkjarni á landinu utan suðvesturhornsins þannig að Við höfum af þessu þungar áhyggjur,“ segir Elliði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×