Innlent

Alvarlegt mál þegar gæðum námsins er ógnað

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
María Rut Kristinsdóttir er formaður Stúdentaráðs.
María Rut Kristinsdóttir er formaður Stúdentaráðs. mynd/arnþór
Eins og fram kom í gær mun framlag íslenska ríkisins til Háskóla Íslands lækka um 321,8 milljónir króna á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Skrásetningargjöldin voru hækkuð í fyrra úr 45 þúsund krónum  í 60 þúsund og verða nú hækkuð í 75 þúsund. María Rut Kristinsdóttir, formaður Stúdentaráðs, segir málið grafalvarlegt.

„Við erum búin núna að lifa við niðurskurð í fimm ár og þetta fer núna að bitna verulega á gæðum náms og kennslu innan háskólans. Það er mjög alvarlegt mál þegar gæðum námsins er ógnað.“

Stúdentaráð fundaði í gærkvöldi og segir María að verið sé að skoða málin. „Við erum að reyna að stíga varlega til jarðar og finna málefnalega lausn á þessu máli. Við viljum ekki belgja okkur strax, en þetta er mjög pólitískt mál sem við þurfum að setjast yfir og skoða.“

María gagnrýnir forgangsröðunina í fjárlögum , sem hún segir að muni hafa slæmar þjóðhagslegar afleiðingar til lengri tíma.

„Ég set allavega stórt spurningamerki við ákveðnar forgangsraðanir í ríkisfjármálunum. Þegar við erum að tala um mennta- og heilbrigðismál eru það mál sem varða alla þjóðina og er mikil eining um að séu öflug og skilvirk, þó ég ætli nú ekki að fara að pota í staka málaflokka. En það er verið að skerða gæði námsins og við verðum ekki jafn vel menntuð fyrir vikið. Til dæmis þegar Finnar gengu í gegn um sína kreppu þá spýttu þeir peningum í menntakerfið sem leiddi af sér þá miklu nýsköpun sem átti sér stað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×