Innlent

Árni Páll: Hvorki staður eða stund fyrir foringja að skrifa skáldsögur

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. Mynd/Valli
Nú er hvorki staður eða stund fyrir foringja að skrifa skáldsögur. Þessi ræða hljómaði eins og upphafskafli í skáldsögunni: „Einfarinn í fyrirmyndarríki sjálfs sín“. Það er saga sem getur ekki endað vel,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, um stefnuræðu Sigmunds Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra.

Árni Páll gagnrýnir nýtt fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar harðlega. Hann segir að svör ríkisstjórnarinnar skapi skaðlega óvissu og séu orðin sjálfstætt efnahagsvandamál.

„Við sjáum fyrirtæki sem mega búa við afleiðingar veikburða gjaldmiðils og gríðarlegan vaxtakostnað, ef þau vilja auka umsvif sín og bæta við sig fólki. Fyrir vikið hafa þau minna svigrúm til að borga góð laun. Og ríkisstjórnin er ekki eins rausnarleg við þau og útgerðina. Fyrirhuguð lækkun tryggingagjalds á næsta ári er tíundi hluti lækkunar veiðigjalds frá í sumar og út næsta ár. Staðan í þeim leik er tíu-eitt. Tíu fyrir stórútgerðina. Eitt fyrir öll hin fyrirtæki landsins.“

Hægja á hjólum atvinnulífsins

„Ríkisstjórnin slær af brýnar uppbyggingarframkvæmdir við skóla og heilbrigðisstofnanir víða um land og byggingu nýs Landspítala. Hún lækkar framlög til uppbyggingar grænnar atvinnustarfsemi, sem allir flokkar voru sammála um á síðasta þingi. Hún kippir grundvellinum undan allri uppbyggingu skapandi greina. Þeim er sannarlega að takast að hægja á hjólum atvinnulífsins,“ segir Árni. Hann telur að á Íslandi séu að verða til tvær þjóðir.

„Annars vegar er fámenn forréttindastétt sem kann ekki aura sinna tal. Hin þjóðin – hinn mikli fjöldi í opinberri þjónustu og hefðbundnum atvinnugreinum – er bundinn við laun í ógjaldgengri krónu sem stöðugt rýrna, hækkandi skuldir og sér ekki framúr því hvernig eigi að kaupa innfluttar nauðsynjar – hvernig eigi að endurnýja bílinn, ísskápinn eða þvottavélina.

Íslenska krónan sér um að draga okkur í tvo dilka: Fjölmennan hóp lágtekjufólks og svo fámennan hóp forréttindafólks sem eitt hefur ráð á því sem einu sinni var á flestra færi að kaupa.“

Árni telur að endurvekja þurfi trú almennings á störfum Alþingis. Það sé aðeins hægt með að tala af alvöru við fólkið í landinu og segja satt. „Þá fyrst er um eitthvað að tala og þá fyrst leysist úr læðingi samtöðuaflið til góðra verka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×