Innlent

Safnaði 190 þúsund krónum fyrir börn í bata eftir krabbamein

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Thelma Líf hefur safnað 190 þúsund krónum.
Thelma Líf hefur safnað 190 þúsund krónum. mynd/Gauti Þór Grétarsson
15 ára stúlka á Akureyri, Thelma Líf Gautadóttir styrkti verkefnið Eftirfylgni út í lífið, sem er verkefni hjá Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna um 190 þúsund krónur í vikunni.

Thelma Líf segir að henni hafi dottið í hug að snoða á sér á hárið og gera eitthvað gott með það í leiðinni. Fyrst ætlaði hún að gefa hárið á sér til hárkollugerðar en eftir að hafa hringt á nokkra staði til að kanna með það komst hún að því að hárið hennar yrði ólíklega notað í hárkollu. Líklegra yrði að það yrði notað til þess að þurrka upp olíu eftir olíuslys í sjónum.

„Þá ákvað ég frekar að eiga hárið og búa til síðu þar sem ég safnaði pening fyrir styrktarfélagið,“ segir Thelma Líf. „Pabbi minn hringdi í félagið og spurði hvort það væru einhver verkefni sem ég gæti styrkt og mér var bent á nokkur og eftir að ég kynnti mér þetta verkefni, valdi ég það.“

„Mér fannst bara sniðugt að styrkja þá sem lifa af, mér fannst það góð hugmynd að hjálpa þeim,“ segir hún.

Að Thelmu Lífar sögn er mun þægilegra að vera snoðuð en með sítt hár og hún kann breytingunni vel. Ef meiri peningur kemur inn vegna söfnunarinnar segist hún að sjálfsögðu munu láta það renna til verkefnisins.

Hér er linkur á söfnunarsíðuna.



Verkefnið Eftirfylgni út í lífið

Verkefnið Eftirfylgni út í lífið er að hefjast hjá styrktarfélaginu um þessar mundir. „Þetta er eðlilegt framhald af því sem við höfum verið að gera, fókusinn hefur verið á meðferð barnanna. En núna erum við að fylgja krökkunum út fyrir spítalann og út í það umhverfi sem tekur við þegar meðferð lýkur,“ segir Gréta Ingþórsdóttir, framkvæmdarstjóri Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna.

Að sögn Grétu á þjónustan að vera einstaklingsmiðuð. Börnin geta oft verið orkulítil og einbeitingalaus í kjölfar veikindanna og meðferðarinnar. Enda eiga þau oft erfiða lyfjameðferð að baki. Verkefnið felst í því að iðjuþjálfi tekur út aðstæður skjólstæðinga félagsins í skólum, bæði sem snúa að samskiptum annars vegar og aðstæðum og aðbúnaði hins vegar.  Markmiðið er að fylgja hverju barni náið eftir og koma til móts við þarfir þess á hverjum stað og hverjum tíma. „Það þarf oft ekki nema lítið til að börnum líði mikið betur.“

Árlega greinast 10 til 12 börn með krabbamein á Íslandi. Flest þeirra lifa af, en þurfa að gangast undir erfiðar meðferðir, lyfjagjafir, geisla og skurðaðgerðir. Þessu geta fylgt síðbúnar afleiðingar.

Gréta er ánægð með framtak Thelmu Lífar. „Það er náttúrulega frábært að svona ung manneskja skuli hugsa til okkar með þessum hætti og gera það sem hún gerði, það er ótrúlega aðdáunarvert,“ segir Gréta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×