Innlent

„Strax“ teygjanlegt hugtak að mati Vísindavefsins

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Vigdís Hauksdóttir hefur rétt fyrir sér þegar hún segir „strax“ vera teygjanlegt hugtak ef marka má Vísindavefinn.
Vigdís Hauksdóttir hefur rétt fyrir sér þegar hún segir „strax“ vera teygjanlegt hugtak ef marka má Vísindavefinn.
Ef marka má svar sem birtist á Vísindavefnum í dag þá er hægt túlka orðið „strax“ sem teygjanlegt hugtak. Eyja Margrét Brynjarsdóttir heimspekingur svarar á Vísindavefnum og kemst að þeirri niðurstöðu að túlkun á orðinu „strax“ séð háð þeim atburði eða athöfn sem um sé rætt.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis, sagði í aðdraganda kosninga að 12-13 milljarða króna þyrfti strax í rekstur Landspítalans. Í Kastljósi fyrir helgi voru þessi ummæli hennar rifjuð upp og en þá svaraði hún að „strax“ væri kannski teygjanlegt hugtak.

„Auk tímasetningarinnar sem orðið ‚strax‘ er notað á skiptir máli hvers konar atburð eða athöfn er verið að tala um sem á að fara fram strax. „Sjúkrabíllinn kemur strax“ vísar vonandi til einhvers sem gerist innan fáeinna mínútna en „Strax verður hafist handa við smíði nýrrar geimrannsóknarstöðvar“ vísar til lengra tímabils. Í þessum skilningi má segja að ‚strax‘ sé teygjanlegt hugtak. Það er að segja að sá tími sem gera má ráð fyrir að líði frá því að orðið er látið falla þangað til atburðurinn sem það tengist á sér stað er mislangur eftir því hvers konar atburð er um að ræða,“ segir í svari Eyju Margrétar.

Hér má lesa svar Vísindavefsins í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×